Innlit í vísindasafn á Vísindavöku Rannís

27.09.2019
Hrafn matar unga sína á hreiðri í Urriðaholti 2012
Mynd: Erling Ólafsson

Hrafn matar unga sína á hreiðri í Urriðaholti.

Vísindavaka 2019 verður haldin í Laugardalshöllinni, laugardaginn 28. september. Náttúrufræðistofnun Íslands verður á staðnum og býður gestum að skyggnast inn í vísindasafn stofnunarinnar þar sem hrafninn verður í brennidepli.

Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi, en hún er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu undir heitinu „European Researchers' Night“. Markmið með Vísindavöku er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi.

Eitt af meginhlutverkum Náttúrufræðistofnunar Íslands er að stunda undirstöðurannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði Íslands og annast skipulega heimildasöfnun um náttúru landsins og að varðveita niðurstöður og eintök í fræðilegum söfnum. Í vísindasöfnum stofnunarinnar eru þannig varðveitt milljónir eintaka af lífverutegundum, steingervingum, seti, borkjörnum, steindi og bergi. Margir safngripanna eru sjaldgæfir eða finnast ekki lengur í íslenskri náttúru, aðrir mynda samfellda tímaröð yfir marga áratugi með eintökum af sömu tegund frá sama stað.

Vísindasöfn eru notuð af fræðimönnum til samanburðar á eintökum og til frekari rannsókna. Oft reynist einnig útilokað eða kostnaðarsamt að afla nýrra sýna til rannsókna og þá leita fræðimenn í vísindasöfn. Árlega er fjöldi safngripa lánaður úr söfnum Náttúrufræðistofnunar Íslands til rannsókna á vegum innlendra og erlendra fræðimanna.

Á Vísindavöku fá gestir að skyggnast inn í dýrafræðisafn stofnunarinnar með áherslu á hrafninn. Gestir fá meðal annars að kynnast aðferðum sem notaðar eru til varðveislu gripa, skoða ólík eintök af sömu tegund, fræðast um egg ólíkra tegunda, sjá muninn á stærsta og minnsta spörfugli landsins. Þorvaldur Þór Björnsson starfsmaður við dýrasafn stofnunarinnar verður á staðnum og svarar spurningum gesta.

Vísindasöfn Náttúrufræðistofnunar Íslands

Vísindavaka