Litast um á Lauffellsmýrum

10.09.2019
Séð til norðausturs yfir neðsta hluta Lauffellsmýra, Hellisá og Skaftáreldahraun að baki
Mynd: Sigmar Metúsalemsson

Séð til norðurs yfir neðsta hluta Lauffellsmýra, Hellisá og Skaftáreldahraun að baki.

Nýverið fóru þrír starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands í leiðangur inn á Síðumannaafrétt í þeim tilgangi að skoða Lauffellsmýrar, eitt stærsta votlendi á miðhálendi Íslands. Þar er að finna fremur sjaldgæfa vistgerð sem nefnist rimamýravist. Gerðar voru athuganir á gróðri í mýrunum og þær ljósmyndaðar.

Lauffellsmýrar eru víðlent votlendissvæði við Hellisá, suðvestan vegar inn í Lakagíga. Að mýrunum liggur Skaftáreldahraun frá árinu 1783 að norðvestan en að sunnan er Lauffell og fjalllendið þar suðvestur af. Mýrarnar eru með þeim stærstu á miðhálendi landsins en þeim hefur þó fremur lítill gaumur verið gefinn í rannsóknum á náttúrufari og fáar heimildir er að finna um gróður og dýralíf þar.

Á loft- og gervihnattamyndum af mýrunum má greina áberandi yfirborðsmynstur sem gefur til kynna að þær megi flokka sem rimamýrar og vistgerð þeirra rimamýravist. Rimamýrar draga nafn sitt af því að í þeim eru langir þúfnagarðar eða rimar en á milli þeirra forblautar flóalægðir og tjarnir. Rimarnir liggja þvert á eða í sveig undan landhalla. Rimamýrar eru fremur sjaldgæfar á landinu en helstar þeirra utan Lauffellsmýra eru Miklumýrar á Hrunamannaafrétti, mýrar á Fljótsheiði í Suður-Þingeyjasýslu og á Mosfellsheiði. Í tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands árið 2018 til B-hluta náttúruminjaskrár var lagt til að Miklumýrar og Lauffellsmýrar yrðu friðlýstar vegna hinna sérstæðu vistgerða sem þar er að finna.

Í leiðangrinum á Lauffellsmýrar var farið um hluta þeirra og gerðar athuganir á gróðri rima og lægða milli þeirra á 10 stöðvum í efri hluta mýranna. Einnig voru þær ljósmyndaðar af jörðu og úr lofti með dróna. Þar sem borið var niður og gróður skráður fannst alls 31 tegund æðplantna, allar þeirra algengar í mýrum. Eins og við mátti búast kom fram mikill munur á gróðri rima og lægða. Gróður rima var mun ríkari en á þeim voru skráðar 27 tegundir. Þar voru útbreiddastar kornsúra, brjóstagras, blávingull, bláberjalyng, loðvíðir, grasvíðir, mýrfjóla, engjarós, tjarnastör og klófífa. Barnamosi (Sphagnum) var áberandi í rimum. Í lægðum eða flóablettum milli rima var gróður mun einsleitari og tegundir færri. Þar voru skráðar 17 tegundir en af þeim var hengistör langalgengust. Aðrar útbreiddar tegundir í lægðum voru tjarnastör og fergin.

Í mýrunum er fjöldi tjarna en gróður þeirra var ekki kannaður. Varpfuglar voru að mestu horfnir af svæðinu en þar voru þó enn álftir með unga á tjörnum, þúfutittlingar sáust nokkrir, rjúpur og fálki. Fyrr á tíð voru Lauffellsmýrar nýttar til slægna af bændum í nálægum sveitum.

Fleiri myndir frá Lauffellsmýrum eru birtar á Facebook-síðu stofnunarinnar. Nánar verður sagt frá mýrunum á Hrafnaþingi á vetri komanda.

Séð yfir neðsta hluta Lauffellsmýra, á mótum Hellisár og Kálfár
Mynd: Sigmar Metúsalemsson

Séð til suðurs yfir neðsta hluta Lauffellsmýra á mótum Hellisár og Kálfár.

Á mótum Skaftáreldahrauns og mýra vestan Hellisár
Mynd: Sigmar Metúsalemsson

Á mótum Skaftáreldahrauns og mýra vestan Hellisár. Rimar koma fram sem ljósar línur í yfirborði en á milli þeirra eru dökkar flóalægðir og tjarnir.