Köngulær á aðventunni

18.12.2019
Ekkjukönguló, eða svört ekkja, af ógreindri tegund (Latrodectus)
Mynd: Erling Ólafsson

Ekkjukönguló, eða svört ekkja, af ógreindri tegund (Latrodectus).

Í aðdraganda jóla skjóta iðulega upp kollum hin ýmsu kvikindi sem borist hafa til landsins með fjölbreyttum innflutningi vegna jólahaldsins. Sitthvað berst til dæmis með dönsku jólatrjánum, allskyns glingri, fersku grænmeti og ávöxtum. Á aðventunni að þessu sinni ber hæst köngulær sem fólk hefur fengið í kaupbæti með amerískum vínberjum.

Köngulær eru með áhugaverðustu smádýrunum og af óskiljanlegum ástæðum líkar fólki almennt illa við þær. Íslenska köngulóafánan er því miður afar fáskrúðug en aðeins 87 tegundir hafa verið staðfestar sem íslenskar. Margar tegundir að auki hafa slæðst til landsins með varningi. Sumar þeirra hafa verið nafngreindar en meiri hlutinn ekki.

Athygli vakti þegar Vísir birti 22. nóvember síðastliðinn frétt um könguló sem gjarnan gengur undir heitinu svarta ekkjan. Hún hafði fylgt vínberjapoka sem keyptur var í matvöruverslun í Garðabæ inn á heimili þar í bæ. Fáar köngulær vekja jafn mikinn ugg í hugum okkar Íslendinga og einmitt svartar ekkjur enda fara af þeim hryllingssögur. 

Fáir gera sér grein fyrir að þessi fræði eru ekki svona einföld. Svarta ekkjan er nefnilega samheiti yfir margar af meira en þrjátíu tegundum ekkjuköngulóa af ættkvíslinni Latrodectus sem finnast víða um heim þar sem heittemprað og hitabeltisloftlag ríkir. Það er staðreynd að bit sumra tegundanna getur reynst varhugavert enda eitur þeirra öflugt.

Loftslag er of kalt á okkar slóðum til að ekkjuköngulær fái þrifist. Engar líkur eru til þess að þær muni nokkurn tímann ná hér fótfestu. Hins vegar gerist það stundum að ekkjuköngulær berist til landsins með varningi, oftast væntanlega með vínberjum innfluttum frá Norður-Ameríku. Í safni Náttúrufræðistofnunar Ísland eru varðveitt alls 13 eintök sem hingað hafa borist. Flest hafa fundist á höfuðborgarsvæðinu, auk þess á Grundartanga, Selfossi og Húsavík. Það elsta fannst í Reykjavík árið1998 en öll önnur tilfelli eru frá þessari öld.

Kunnust ekkjuköngulóa er norður-ameríska tegundin Latrodectus mactans. Því miður eru ekkjuköngulær afar torgreindar til tegunda. Jafnan sjá menn fyrir sér biksvarta könguló með rauðan blett neðan á afturbolnum sem líkastur er stundaglasi í laginu. Stundaglasið fylgir mörgum tegundanna en ýmislegt annað skrúð kemur við sögu sem ekki dugar alltaf til að finna ekkjuköngulóm heiti því breytileiki innan tegundanna getur verið nokkur. Eintökin okkar þrettán hafa enn ekki verið nafngreind með vissu en verið er að vinna í því. Að öllum líkindum koma að minnsta kosti fjórar tegundir þar við sögu.

Sem sagt var vakti fréttin á Vísi athygli og opnaði augu fólks nú á aðventunni. Fleiri svartar köngulær með rauðum blettum skutu kollum upp úr vínberjaklösum í kjölfar fréttarinnar síðustu dagana í nóvember og fram í desember. Þegar upp var staðið höfðu sjö slíkar borist okkur á Náttúrufræðistofnun til skoðunar. Ein þeirra reyndist vera ekkjukönguló (Latrodectus) eins og sú fyrstnefnda en hinar voru af áhugaverðri ætt stökkköngulóa. Allar fundust þær á höfuðborgarsvæðinu og tilheyrðu tegund sem hafði ekki áður fundist hér á landi. Allar höfðu þær fengist í kaupbæti með amerískum vínberjum sem fólk hafði keypt í verslunum úr einni og sömu verslunarkeðjunni. Þær vöktu nokkurn ugg, svartar á lit með rauða bletti, reyndar á baki en ekki kviði. Tegund þessi er algeng í Norður-Ameríku og hefur verið nefnd krúnukönguló (Phidippus audax)

Stökkköngulær höfðu áður borist með vínberjum til landsins. Í lok árs 2017 og svo áfram árið eftir bárust Náttúrufræðistofnun fjögur eintök af tegund sem hafði ekki áður fundist hér á landi. Svo vill til að þar var á ferð náinn ættingi krúnuköngulóar í Norður-Ameríku og hlaut hún heitið þrúgukönguló (Phidippus johnsoni). Ekki er ástæða til að óttast þessar frænkur. Tilneyddar geta þær bitið með sterkum kjálkum sínum  en afleiðingarnar verða varla verri en smávægilegur sviði og roði sem gengur fljótt yfir.

Krúnukönguló (Phidippus audax), ungviði. Slæðingur með vínberjum 2019.
Mynd: Erling Ólafsson

Krúnukönguló (Phidippus audax), ungviði. Slæðingur með vínberjum 2019.

Þrúgukönguló (Phidippus johnsoni)
Mynd: Erling Ólafsson

Þrúgukönguló (Phidippus johnsoni), kvendýr. Slæðingur með vínberjum 2019.