Frjómælingar framan af sumri

Akureyri

Frjómælingar hófust á Akureyri 24. mars en einungis nokkur frjókorn mældust þann mánuðinn. Í byrjun apríl fóru elri- og lyngfrjó að mælast í litlu magni. Alls mældust 48 frjó/m3 í aprílmánuði sem er nokkuð undir meðallagi.

Í maí var heildarfjöldi frjókorna 574 frjó/m3, sem er aðeins yfir meðallagi. Mest var af asparfrjóum eða 303 frjó/m3 sem er langt yfir meðallagi (107 frjó/m3). Fyrsta birkifrjókornið mældist 15. maí og fjölgaði þeim mikið síðustu vikuna í mánuðinum. Heildarfjöldi þeirra í maí var 144 frjó/m3 sem er vel undir meðallagi (310 frjó/m3).

Í júní mældust alls 696 frjó/m3 en meðaltalið er 674 frjó/m3. Birkifrjó voru algengasta frjógerðin og mældist fjöldi þeirra 278 frjó/m3, sem er þó nokkuð undir meðaltali (342 frjó/m3). Frjótíma birkis lauk undir lok mánaðar. Minna var af grasfrjóum í júní en í sama mánuði undanfarin þrjú ár en heildarfjöldi þeirra var 113 frjó/m3, meðaltalið er 102 frjó/m3. Súrufrjó voru nokkuð yfir meðaltali en aðrar frjógerðir í júní vorum einkum furufrjó, starafrjó og frjó rósaættar, en alls mældust 19 frjógerðir.

Garðabær

Í Garðabæ hófust frjómælingar 25. mars. Mjög fá frjókorn mældust í mars og apríl eða aðeins 14 frjó/m3 en meðaltal fyrir apríl er 58 frjó/m3. Þau frjókorn sem mældust voru elrifrjó og lyngfrjó, auk nokkurra óþekktra frjókorna.

Í maí mældist fjöldi frjókorna 255 frjó/m3, sem er aðeins undir meðallagi. Asparfrjó byrjuðu að mælast snemma í mánuðinum og var heildarfjöldi þeirra 58 frjó/m3 sem er vel yfir meðaltalinu (31 frjó/m3). Mest var af birkifrjóum, 114 frjó/m3, sem er nokkuð undir meðaltali (161 frjó/m3).

Í júní mældust alls 2.479 frjó/m3 sem er vel yfir meðaltali, sem er 1.149 frjó/m3. Mest var af furufrjóum eða 1.190 frjó/m3. Þar á eftir voru grasfrjó og var fjöldi þeirra 478 frjó/m3 sem er vel yfir meðaltalinu (286 frjó/m3). Fjöldi birkifrjóa var 499 frjó/m3 sem er nálægt meðaltalinu ( 507 frjó/m3). Fjöldi súrufrjóa var nálægt meðaltali en aðrar frjógerðir í júní voru einkum grenifrjó og lúpínufrjó. Alls mældust 20 frjógerðir.

Frjótíma birkis er nú lokið en aðalfrjótími grasa er framundan í júlí og ágúst.

Fréttatilkynning um frjómælingar í apríl og maí 2020 (pdf)

Fréttatilkynning um frjómælingar í júní 2020 (pdf)