Surtseyjarleiðangur líffræðinga 2020

Rannsóknir líffræðinga í Surtsey undanfarna daga sýna að gróska í eynni er með eindæmum góð þetta sumarið. Aldrei áður hafa fundist jafnmargar æðplöntutegundir og þar af voru tvær nýjar. Einnig eru tvær nýjar smádýrategundir komnar fram.

Árlegur leiðangur Náttúrufræðistofnunar Íslands til líffræðirannsókna í Surtsey fór fram dagana 13.-17. júlí. Í honum tóku þátt sjö líffræðingar stofnunarinnar, auk sérfræðings frá Landbúnaðarháskóla Íslands og landvarðar Umhverfisstofnunar. Vöktun á landnámi plantna og dýra fór fram á hefðbundinn hátt. Veður var ágætt í byrjun en snérist síðan upp SA-strekking og úrhellisrigningu. Til stóð að yfirgefa eyna 16. júlí en það frestaðist til 17. júlí vegna veðurs.

Ofsaköst vetrarveðra síðastliðinn vetur höfðu sett mark sitt á eyna, brotið vel úr björgum og grafið hvelfingar inn í þau. Sjór hafði gengið yfir norðurtangann úr austri, borið grjót úr kambinum inn á flötina, grafið djúpa farvegi í hana og flætt áfram yfir austan megin. Tangaflötin hafði fengið nýja ásýnd.

Gróður og jarðvegur

Í föstum rannsóknareitum víðs vegar um eyna fóru fram mælingar á gróðri, auk þess sem ljóstillífun plantna og virkni í jarðvegi var mæld. Jarðvegssýni voru tekin til efnamælinga og niðurbrotspokar grafnir upp og nýir settir í alla reiti. Þá var gróskustuðull (NDVI) mældur í öllum föstum reitum og í mælireitum við mastur, en hann er mælikvarði á blaðgrænu og grósku gróðurs.

Markvisst var leitað og skráðar tegundir æðplantna í eynni, gamalkunnar tegundir staðfestar og horft eftir nýjum. Alls fundust 67 tegundir á lífi, sem er met á einu sumri. Þar af voru tvær nýjar tegundir, mýrastör (Carex nigra) og vætudúnurt (Epilobium ciliatum) , auk þess sem hvítmaðra (Galium normanii) fannst á ný, en hún sást síðast árið 1998. Engin tegund hafði horfið síðan árið 2019. Alls hafa nú 78 tegundir æðplantna verið skráðar á eynni frá upphafi.

Fuglar

Máfavarp var með seinna móti að þessu sinni. Svartbakur var mest áberandi og tekur hann stöðugt til sín meira af varplendum sílamáfs og bolar honum út á minna gróið hraun. Silfurmáfar voru með færra móti. Lítið bar á ungum máfanna enda fæstir komnir á þann þroska að fara að safnast saman á bjargbrúnum. Sumir sílamáfar voru enn á eggjum. Fýlum fer fjölgandi í graslendinu inni á eynni. Teistur voru allsstaðar með ströndum og allnokkrir lundar sátu uppi í björgunum á suðvestanverðri eynni. Ekki tókst að staðfesta varp þeirra. Hrafnar höfðu gert laup syðst í Surtungi og sáust mest þrír fuglar saman, þar af var ungahljóð í einum. Þúfutittlingshreiður með eggjum fannst í gamla máfavarpinu og sennilega voru 2–3 pör í varpi. Maríuerlur með fleyga unga sáust bæði á suðureynni og á Tanga, að minnsta kosti þrjú pör. Snjótittlingar voru eins og jafnan nokkur pör, minnst fimm. Á Tanga sáust nokkrir sendlingar, sandlóa og steindepill. Æðarkolla hefur haldið sig á eynni undanfarin sumur. Eitt sumarið leiddi hún unga til sjávar. Nú sást henni rétt bregða fyrir þegar hún flaug norður yfir eynni. Nýlegur gæsaskítur sást í gamla varpinu en á hraunklöppum suðaustan á eynni var eldri og fíngerðari skítur, sennilega frá margæsum sem hafa tyllt sér þar í vor.

Smádýr

Smádýr skoðuð á hefðbundin hátt með fallgildrum í flestum mælireitum og tjaldgildru í máfavarpi. Auk þess var smádýrum safnað undan steinum í hraunum og rekaviði á tanganum. Nú þegar eru tvær nýjar tegundir komnar fram, óvænt húshumla (Bombus lucorum) og smáfluga sem ber heiti eyjarinnar, Limnellia surturi, þó hún hafi ekki áður fundist í eynni.

Hreinsun

Meðal verka landvarðar var að hreinsa fjörur af ýmsu drasli sem rekið hafði upp frá síðasta ári. Þar voru 33 netakúlur, ásamt ýmsu plast- og netarusli. Frá árinu 2016 hefur rusl verið hreinsað úr fjörum Surtseyjar og af tanganum á hverju sumri. Átti Surtseyjarfélagið frumkvæði að því. Ekki fóru leiðangursmenn varhluta af Covid-kreppunni. Í máfavarpinu fundust tveir bláir hanskar sem máfarnir höfðu án efa hirt upp á floti í sjónum og borið með sér.