Veiðiþol rjúpnastofnsins 2020

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins haustið 2020 og hafa niðurstöðurnar verið kynntar umhverfis- og auðlindaráðherra með bréfi. Ráðlögð rjúpnaveiði í haust er um 25 þúsund fuglar.

Rjúpnastofninn er í niðursveiflu um allt Norðurland, á Austurlandi er stofninn að rísa úr lágmarki og um vestanvert landið er stofninn líklega að ná hámarksfjölda. Viðkoma rjúpunnar á Norðausturlandi var afleit og réðu því hrakviðri um miðjan júlí. Þessa illviðris gætti frá Strandasýslu í vestri og austur um til Norður Þingeyjarsýslu og væntanlega er viðkomubrestur raunin hjá rjúpunni á öllu þessu landsvæði. Á Suðvesturlandi var afkoma rjúpuunga hins vegar ágæt. Áætlaður rjúpnafjöldi haustið 2020 er einn sá lægsti miðað við síðustu áratugi. Rétt er að taka fram að þessir útreikningar byggja á gögnum fyrir Norðausturland og mögulega er stofnstærð vanmetin.

Á samráðsfundi fulltrúa Náttúrufræðistofnunar Íslands, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Umhverfisstofnunar, Skotveiðifélags Íslands og Fuglaverndar, sem haldinn var 10. september síðastliðinn, var enginn ágreiningur um ástand rjúpnastofnsins 2020 og árangur veiðistjórnunar 2005 til 2020.

Reiknuð heildarstærð varpstofns rjúpu vorið 2020 var metin 99 þúsund fuglar. Framreiknuð stærð veiðistofns 2020 er 280 þúsund fuglar miðað við að hlutfall unga á veiðitíma sé 71%. Með varpstofni annars vegar og veiðistofni hins vegar er átt við fjölda fugla á lífi í upphafi varptíma og í upphafi veiðitíma. Samkvæmt framangreindum útreikningum er ráðlögð veiði 2020 um 25 þúsund fuglar. Þessi ráðgjöf miðast við að áhrif veiða séu ekki önnur en þau að veiðiafföll bætast að fullu við náttúruleg afföll.

Umhverfis- og auðlindaráðherra ákvað haustið 2019 að rjúpnaveiðitíminn yrði 22 dagar og að sama fyrirkomulag skyldi gilda 2020 og 2021 nema eitthvað óvænt komi upp. Niðurstöður rjúpnatalninga vorið 2020 sýndu í sjálfu sér ekkert óvænt, sums staðar er stofninn í eða nærri hámarki, annars staðar í lágmarki og enn annars staðar einhverstaðar þar á milli. Það sem er óvænt í stöðunni 2020 er viðkomubrestur sem spannar að öllum líkindum allt land frá Strandasýslu í vestri til Norður-Þingeyjarsýslu í austri, þetta eru meginuppeldisstöðvar rjúpu á Íslandi. Í samræmi við það er veiðistofn rjúpu metinn einn sá minnsti síðan mælingar hófust 1995. Náttúrufræðistofnun leggur mikla áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirra viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar og afli verði ekki umfram 10% af veiðistofni eins og reyndin hefur verið frá 2005

Greinargerð um veiðiþol rjúpnastofnsins 2020 (pdf, 2 MB)

Bréf til umhverfisráðherra (pdf, 0,5 MB)