Fuglamerkingar 2019

Frá upphafi merkinga árið 1921 hafa samtals verið merktir 756.456 fuglar af 161 tegund. Fjöldi merktra fugla árið 2019 var heldur minni en tvö árin á undan þegar rúmlega 21.000 fuglar voru merktir hvort ár, en svipaður meðaltali 10 síðustu ára. Um 73% merkta fugla voru af sex tegundum; 3.531 auðnutittlingur, 2.574 skógarþrestir, 1.990 snjótittlingar, 1.504 kríur, 1.144 lundar og 758 ritur. Þrjár nýjar tegundir voru merktar á árinu. Það voru víxlnefur (Loxia leucoptera), næturgali (Luscinia megarhynchos) og tígultáti (Pheucticus ludovicianus).

Óvenju margar tilkynningar um endurheimtur og álestra á merki bárust á árinu. Alls voru 4.779 tilkynningar um endurfundi íslenskra merkja afgreiddar. Af þeim voru 4.095 (86%) endurveiðar á merkingarstað, 581 merki innanlands utan merkingarstaðar og 103 merki erlendis. Auk þess voru 94 erlend merki sem lesið var á hérlendis. Mest endurheimtist af auðnutittlingum eða 3.472 fuglar.

Lengsta skráða ferð í endurheimtum ársins 2019 var endurfundur sílamáfs í Casablanca í Marokkó sem var merktur sem ófleygur ungi á Garðaholti sumarið 2012. Hann var 3.529 km frá merkingarstað. Á svipuðum slóðum, eða á Tangier í Marokkó, fannst merki af heiðagæs sem merkt var sem ófleygur ungi í Þjórsárverum árið 1953, 3.315 km frá fundarstað. Merkið var grafið í jörð og fannst með hjálp málmleitartækis. Þetta er langt utan hefðbundinna slóða íslenskra heiðagæsa sem einkum hafa vetursetu á Bretlandseyjum. Svo virðist sem talsvert af heiðagæsum sem merktar voru af breskum leiðangri sem Sir Peter Scott leiddi í Þjórsárver 1953, hafi lent í hrakningum á leið sinni til vetrarstöðva um haustið. Auk þessa bárust meðal annars tilkynningar um endurheimtur frá Kanaríeyjunni Lanzarote, Azoreyjunni Terceira og Astorias á Spáni.

Ár frá ári fjölgar tegundum og einstaklingum sem merktir eru með staðsetningabúnaði sem sendir ýmist ferðasögu sína um gervihnött eða farsímakerfi eða hlaða niður gögnum í gagnarita sem þarf að endurheimta til að lesa af. Með þessum hætti uppgötvaðist nýlega ferðalag óðinshana frá V-Evrópu, þar á meðal fjögurra frá Íslandi, þvert yfir Atlantshaf og Mið-Ameríku til hafsvæða austanverðs Kyrrahafs við strendur Perú, um 10 þúsund kílómetra leið.

Nokkur aldursmet voru slegin á árinu. Skrofa sem merkt var fullorðin á hreiðri í Ystakletti árið 1991, þá líklega að minnsta kosti sex ára, fannst á sama stað 27 árum síðar sumarið 2018, þá ekki minna en 33 ára gömul. Sami fugl var í sömu holu sumarið 2020, þá að minnsta kosti 35 ára. Margæs sem var merkt ársgömul á Álftanesi vorið 2004 fannst illa haldin í Seabansk, Dundalk Bay á Írlandi haustið 2019 og dó, þá 15 ára og 4 mánaða. Sendlingur sem merktur var sem ófleygur ungi á Hraunhafnartanga á Sléttu sumarið 2006 endurveiddist á sama stað 13 árum síðar. Langvía sem merkt var fullvaxin í varpi í Látrabjargi í júní 1987 var endurveidd á hreiðri á sama stað í júní 2019, þá að minnsta kosti 33 ára. Stuttnefja sem merkt var sem fullvaxinn fugl í varpi í maí 1996 í Látrabjargi, endurheimtist á hreiðri sínu í Látrabjargi í júní 2018, þá að minnsta kosti 25 ára gömul. Hrossagaukur sem merkt var á hreiðri að minnsta kosti ársgamall í Flatey á Breiðafirði í júní 2008 var endurveiddur á sama stað í júlí 2019, þá orðinn að minnsta kosti 12 ára gamall.

Ítarlegri upplýsingar um fuglamerkingar 2019 má finna í skýrslunni Fuglamerkingar 2019 (pdf)