Skarfastofnar styrkjast

Náttúrufræðistofnun Íslands hóf vöktun skarfa árið 2016 með talningum á hreiðrum í þekktum skarfabyggðum á Vesturlandi. Það er gert með því að telja hreiður af ljósmyndum sem teknar eru úr flugvél. Um er að ræða framhald rannsókna sem Arnþór Garðarsson prófessor í dýrafræði við Háskóla Íslands hóf árin 1973–1975 en fyrsta stofnmat hans á íslenskum skarfastofnum lá fyrir árið 1979. Dílaskarfur hefur verið talinn árlega frá 1994 en toppskarfur, sem er dreifðari og erfiðari við að eiga, var talinn á um 10 ára fresti frá 1975 til 2007 og svo árlega eftir 2016.

Nýverið kom út skýrsla um vöktun skarfa á Íslandi 2020. Þar kemur fram að mat á varpstofni dílaskarfs er 5.330 hreiður. Árið 2016 voru hreiðrin 4.393 talsins og hefur þeim því fjölgað um rúmlega 21% á tímabilinu. Dílaskörfum fjölgaði úr sögulegu lágmarki (2.346 hreiður) árið 1995 í sögulegt hámark (5.752 hreiður) árið 2014. Síðustu 12 ár hefur fjöldi hreiðra sveiflast í kringum 5.000. Fylgst er með viðkomu og nýliðun hjá dílaskörfum með aldursgreiningum í september og febrúar. Út frá þeim var áætluð stærð dílaskarfsstofnsins 25.893 einstaklingar í september 2020.

Árið 2020 var heildarfjöldi toppskarfshreiðra metinn 6.092. Hreiður toppskarfs voru 3.920 árið 2016 og fækkaði næstu 2 ár í 3.731 hreiður árið 2018. Síðan hefur hreiðrum toppskarfa  fjölgað verulega í 6.092 og nemur fjölgunin 63,3%. Toppskarfur er þannig að rétta úr kútnum eftir áralanga hnignun, sem ef til vill má rekja til hruns sandsílis árið 2005. Hæsta stofnmat toppskarfs frá upphafi talninga var árið 1975 þegar fjöldi hreiðra var áætlaður 7.049. Fjölgunina síðustu ár má líklega rekja til bættra fæðuskilyrða, þar sem aukning í varpþátttöku er langt umfram nýliðun. Stærð toppskarfsstofnsins er ekki hægt að áætla með aldursgreiningum þar sem ekki er hægt að greina á milli geldfugla og varpfugla úti í náttúrunni. Stofnmat er því byggt á lýðfræðilegum vísitölum og stærðargráða áætluð gróflega með margföldun á fjölda hreiðra. Áætluð stofnstærð toppskarfa í september 2020 var samkvæmt því 25.282 fuglar.

Veiðar eru heimilar á dílaskörfum og toppskörfum á tímabilinu 1. september til 15. mars og hafa veiðarnar verið skráðar síðan 1995. Fyrstu árin eftir að skráningar hófust var veiðiálag á báðar tegundir umtalsvert en síðan þá hefur verulega dregið úr þeim, þrátt fyrir uppsveiflu í báðum stofnum. Í dag er meðalveiði um 6% af reiknaðri stofnstærð beggja tegunda í byrjun veiðitíma og því má telja skarfaveiði sjálfbæra.

Ljóst að fækkun skarfa frá því einhvern tímann á bilinu 1994–2007 og til ársins 2018 orsakaðist ekki af veiði heldur fremur af öðrum þáttum, svo sem breyttum fæðuskilyrðum. Stofn sandsílis hefur minnkað verulega frá 2005 og það hefur valdið viðkomubresti hjá mörgum sjófuglategundum á Suður- og Vesturlandi, meðal annars hjá kríu, álku, langvíu, lunda og sílamáfi. Þar sem síli er mikilvæg fæða toppskarfs á varptíma er ekki ólíklegt að sandsílabrestur hafi haft neikvæð áhrif á toppskarfsstofninn. Engar mælingar eiga sér stað á ástandi sandsílastofnsins eða á framboði annarrar fæðu fyrir toppskarfa en fjölgun þeirra gæti bent til að sandsíli sé aftur að styrkjast.

Veiðikortasjóður styrkir vöktun skarfa.

Rannsóknaverkefnið vöktun skarfastofna