Átak í skráningu æðplantna

14.05.2021
Burnirót (Rhodiola rosea)
Mynd: Erling Ólafsson

Burnirót (Rhodiola rosea).

Stjórn Flóruvina, sem er hópur áhugafólks um íslenska flóru, og Hið íslenska náttúrufræðifélag hafa boðað til sumarátaks sem hefur það að markmiði að bæta þekkingu á útbreiðslu æðplantna á Íslandi. Átakið felst í að skrá plöntur í reitakerfi Náttúrufræðistofnunar Íslands þar sem upplýsingar skortir.

Náttúrufræðistofnun Íslands heldur úti plöntugagnagrunni þar sem varðveittar eru upplýsingar um útbreiðslu plantna á Íslandi. Upphaflega var gögnum safnað í 10×10 km reitakerfi, meðal annars með aðstoð Flóruvina á sínum tíma, en fyrir um 15 árum síðan var tekið í notkun 5×5 km reitakerfi. Á vegum Flóruvina hefur nú verið kannað hversu margir 5×5 km reitir eru enn þá óskráðir eða vanskráðir, það er með 20 skráningar. Í ljós kom að bæta þarf skráningar í 1.663 reitum, þar sem tegundafjöldi er minni en búist mætti við eða þar sem engar plötutegundir hafa verið skráðar.

Flóruvinir hvetja alla áhugasama um að taka þátt í verkefninu og skrá æðplöntur í sem flestum óskráðum 5×5 km reitum í sumar. Nánari upplýsingar um aðferðir og vinnubrögð er að finna á vef Hins íslenska náttúrufræðifélags.

Í forsvari fyrir Flóruvini eru Hörður Kristinsson, Gróa Valgerður Ingimundardóttir, Pawel Wasowicz, Starri Heiðmarsson og Snorri Sigurðsson, en öll eru þau núverandi eða fyrrverandi starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands.