Gróðureldar við gosstöðvar við Fagradalsfjall

18.05.2021
Kort af gróðueldum á gosstöðvum við Fagradalsfjall 10. maí 2021
Mynd: Hans H. Hansen

Hraunbreiðan þann 10. maí 2021. Brunnið land er hér sýnt með rauðum lit, um 25 ha.

Það sem af er maímánuði hefur borið á gróðureldum við gosstöðvarnar við Fagradalsfjall. Þeirra varð fyrst vart í byrjun maí og hefur útbreiðsla þeirra aukist síðan þá. Þann 10. maí var stærð brunasvæðisins áætluð um 25 ha. Það er einkum mosinn hraungambri (Racomitrium lanuginosum) sem hefur orðið eldinum að bráð og í honum vaxa fáeinar tegundir æðplantna strjált.

Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands skoðaði gróður á gosstöðvunum við Fagradalsfjall þriðjudaginn 11. maí, annars vegar til að meta hvers konar gróður er að hverfa undir hraun og hins vegar verða eldum að bráð. Degi fyrr þakti nýja hraunið 1,78 km2 samkvæmt loftmyndum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Land sem hafði farið undir hraun var að meirihluta lítt gróið land, melar og moldir. Gróflega áætlað var um þriðjungur lands sem nú er þakið nýju hrauni vel gróin mosaþemba og lyngmóar.

Eldar kvikna út frá hraunrennsli og gjóskufalli

Gróðureldarnir á gosstöðvunum kvikna annars vegar út frá hraunjöðrum, þar sem hraun sækir inn í gróið land, og hins vegar út frá glóandi gjósku. Háir gosstrókar sem einkennt hafa eldvirknina við Fagradalsfjall gera það að verkum að gjóska berst fyrir vindi alllangt frá gígnum. Glóandi gjóska svíður mosann þar sem hún fellur til jarðar og vindur ýfir upp glóðina sem tekur að krauma í mosanum.

Gróðureldar sem kviknuðu að líkindum út frá hraunjaðri í Geldingadölum
Mynd: Borgþór Magnússon

Gróðureldar sem kviknað hafa að líkindum út frá hraunjaðri í Geldingadölum.

Umfang eldanna

Eldar sem kviknað hafa út frá hraunjaðri voru bundnir við útbreiðslu hraunsins og voru einkum í Geldingadölum og í Merardölum norðaustanverðum. Eldar sem kviknuðu út frá gjósku voru mun yfirgripsmeiri. Dreifing þeirra var blettótt og logaði bæði í stökum blettum og samfelldum svæðum. Víðtækustu eldarnir sem brunnu þegar úttektin fór fram kviknuðu út frá gjósku og brunnu í mosabreiðum uppi á flötum hraunskildi Fagradalsfjalls í allt að 1.000 metra fjarlægð frá virka eldgígnum. Flatarmál lands sem brunnið hafði í gróðureldunum við gosstöðvarnar var kortlagt af loftmynd stofnunarinnar frá 10. maí. Áætlað flatarmál brunnins lands reyndist vera 25 hektarar.

Á albrunnu landi var aðeins eftir duftkenndur salli ofan á moldinni en víða brann aðeins efsta lag mosans en mosastönglar þöktu enn moldina. Grösugar lautir stóðu sums staðar eftir óbrunnar en líklega varnaði meiri raki og skjól því að eldur náði sér þar upp. Ljóst er að talsverður eldsmatur er í gróðri við gosstöðvarnar þótt rýr sé. Gróft mat á vettvangi bendir til þess að efsti hluti mosaþembunnar brenni en raki frá jarðvegi ver neðri hluta mosans fyrir bruna. Áætluð þyngd efstu 5 cm mosans með strjálingi af æðplöntum er um 1 kg á fermetra. Gróflega má áætla að þegar kortlagningin fór fram hafi um 250 tonn af gróðri brunnið í eldunum.

Hvernig bregst vistkerfið við brunanum

Gera má ráð fyrir að það muni taka langa tíma svæðið að jafna sig aftur þannig að gróður færist í fyrra horf. Gróður á svæðinu er nokkuð áþekkur gróðri á Miðdalsheiði en þar brunnu mosaþembur árið 2007. Rannsóknir frá þeim bruna sýna að hraungambri vex mjög seint upp aftur á brunna svæðinu en æðplöntur sem hafa vaxtarsprota sína neðanjarðar eða í sverði lifna fljótt að nýju. Eru það einkum graskenndar tegundir, svo sem týtulíngresi, blávingull, stinnastör og móasef, en þær finnast í mosaþembu við eldstöðvarnar. Því má gera ráð fyrir að gróðureldarnir við gosstöðvarnar munu breyta gróðursamsetningu, sem og öðrum þáttum vistkerfisins, til langframa.

Eldur lætur lítið yfir sér í mosa en logar glatt í lyngi og grösum
Mynd: Borgþór Magnússon

Eldur kraumar í mosaþembu í Geldingadölum.

Eldar slokknaðir?

Helgina 14.–16. maí rigndi og snjóaði á suðvesturhorni landsins og virðast eldarnir á gosstöðvunum nú slokknaðir. Náttúrufræðistofnun Íslands mun þó áfram fylgjast með svæðinu, endurmeta útbreiðslu brunnins lands og hvort eldar taki sig upp að nýju.