Umfang gróðurelda við gosstöðvar við Fagradalsfjall endurmetið

Gróðurelda varð fyrst vart á svæðinu í byrjun maí og fór starfsfólk stofnunarinnar á vettvang 11. maí síðastliðinn til að meta hvers konar gróður er að hverfa undir hraun og verða gróðureldum að bráð. Þá var umfang eldanna áætlað um um 25 ha. Brunnið land hefur nú verið endurmetið af loftmynd sem tekin var 18. maí og samkvæmt því höfðu 8,5 ha til viðbótar orðið eldi að bráð. Alls höfðu því eldar sviðið gróður á um 31 ha lands utan nýja hraunsins, en það var um 2 km2 að stærð þegar þarna var komið. Gróflega áætlað höfðu um 335 tonn af gróðri brunnið í eldunum.

Helgina 14.–16. maí rigndi og snjóaði á suðvesturhorni landsins og slokknuðu þá gróðureldar við gosstöðvarnar. Dagana 21.–23. maí kviknuðu eldar að nýju út frá virkum hraunjöðrum ofan Nátthaga og víðar en er rigna tók 24. maí kulnuðu þeir.

Náttúrufræðistofnun Íslands mun fylgjast áfram með svæðinu, endurmeta útbreiðslu brunnins lands og hvort eldar taki sig upp að nýju.

Nánari umfjöllun um gróðurelda við gosstöðvarnar við Fagradalsfjall