Vöktun náttúruverndarsvæða vegna ágangs ferðamanna

Verkefnið var sett á laggirnar að frumkvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins en Náttúrufræðistofnun Íslands heldur utan um það og er ábyrgðaraðili þess. Það er unnið í nánu samstarfi við náttúrustofur á landinu og er þetta er í fyrsta sinn sem svo margar stofnanir vinna sameiginlega að því að rannsaka og vakta náttúru landsins og móta heildræna vöktunaráætlun á landsvísu. Auk náttúrustofanna er unnið í nánu samstarfi við umsjónaraðila náttúruverndarsvæða, Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarð og landeigendur.

Vöktun hófst sumarið 2020 þar sem vinsæl ferðamannasvæði voru könnuð og vöktunaraðferðir prófaðar. Undirbúningur verkefnisins hófst árið 2019 en þá var hafist handa við að þróa aðferðafræði, skilgreina vöktunarverkefni og afla grunngagna á mismunandi svæðum. Vöktunin á sér stað frá vori fram á haust og er áhersla lögð á að vakta áhrif ferðamanna á vistgerðir, jarðminjar, plöntur, fugla og spendýr.

Eitt þeirra svæða sem vöktuð eru er Vífilsstaðavatn í Garðabæ og þar komu saman í vikunni þeir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Þorkell Lindberg Þórarinsson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og Sindri Gíslason forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands. Guðmundar Ingi fór yfir mikilvægi þess að vakta náttúrufarslega þætti til að skilja hvaða áhrif maðurinn hefur á umhverfi sitt. Áríðandi sé að ekki verði gengið á gæði náttúrunnar og því sé brýnt að tryggja fjármagn í vöktun á lykilþáttum hennar, sérstaklega á svæðum þar sem mannlegra umsvifa gætir. Þorkell Lindberg Þórarinsson fór í stuttu máli almennt yfir markmið og skipulag vöktunar náttúruverndarsvæða og Sindri Gíslason fór sérstaklega yfir þann þátt verkefnisins sem snýr að vöktun flórgoða á Vífilsstaðavatni með tilliti til truflunar og varpárangurs. Settar verða upp sjálfvirkar myndavélar í þeim tilgangi að kanna hvort umferð fólks við vatnið hafi áhrif á varp flórgoðans. Hið sama verður gert á Ástjörn í Jökulsárgljúfrum. Verkefnið er áhugaverður liður í vöktun náttúruverndarsvæða og eru vonir bundnar við að niðurstöður geti orðið leiðbeinandi í tengslum við skipulag og uppbyggingu tengda ferðamönnum innan náttúruverndarsvæða, svo fuglalíf beri ekki skaða af álagi vegna þeirra.

Vöktun náttúruverndarsvæða