Frjómælingar í ágúst

Frjómælingar í ágúst sýndu að magn frjókorna í lofti á Akureyri var mikið, einkum fyrri hluta mánaðar. Í Garðabæ voru frjókorn hins vegar færri en í meðalári.

Á Akureyri var ágústmánuður sá hlýjasti frá upphafi mælinga en einnig óvenju þurr og sólríkur. Heildarfjöldi frjókorna var 1.182 frjó/m3 sem er nokkuð yfir meðaltali áranna 1998–2020 sem er 967 frjó/m3. Frjókorn voru samfellt í lofti allan mánuðinn og voru grasfrjó 95% allra frjókorna eða 1.117 frjó/m3. Aðrar frjógerðir voru einkum súru-, lyng- og netlufrjó, en lítið mældist af þeim.

Í ágúst var heildarfjöldi frjókorna í Garðabæ 362 frjó/m3, nokkuð undir meðaltali áranna 2011–2020 sem er 461 frjó/m3. Frjókorn mældust alla daga mánaðarins en í mestu magni fyrri hluta mánaðar. Flest frjókorna voru grasfrjó, frjótala þeirra var 262 frjó/m3 (72%). Aðrar helstu frjógerðir sem mældust voru netlu-, súru- og lyngfrjókorn, en lítið mældist af þeim.

Grasfrjó geta áfram mælst í september en ólíklegt er að þau verði í miklu magni nema í sérlega góðu haustveðri.

Frjókornaspá

Fréttatilkynning um frjómælingar ágúst 2021 (pdf)

Nánar um frjómælingar