Góð staða skarfastofna

Náttúrufræðistofnun Íslands hóf vöktun skarfa árið 2016 með talningum á hreiðrum í þekktum skarfabyggðum á Vesturlandi. Um er að ræða framhald rannsókna sem Arnþór Garðarsson prófessor í dýrafræði við Háskóla Íslands hóf árin 1973–1975 en fyrsta stofnmat hans á íslenskum skarfastofnum lá fyrir árið 1979. Dílaskarfur hefur verið talinn árlega frá 1994 en toppskarfur, sem er dreifðari og erfiðari við að eiga, var talinn á um 10 ára fresti frá 1975 til 2007 og svo árlega eftir 2016. Talningar fara fram með þeim hætti að hreiður eru talin af ljósmyndum sem teknar eru úr flugvél.

Samkvæmt talningum 2021 fundust dílaskarfar á 5.271 hreiðri en heildartala dílaskarfshreiðra hefur sveiflast í kringum 5.000 hreiður seinasta áratug. Höfuðstöðvar tegundarinnar eru enn í Breiðafirði en dílaskarfi hefur fjölgað mjög í Faxaflóa og Ströndum síðustu ár. Fylgst er með viðkomu og nýliðun hjá dílaskörfum með aldursgreiningum í september og febrúar. Út frá þeim var áætluð stærð dílaskarfsstofnsins 25.089 einstaklingar í september 2021 samanborið við 24.194 árið 2020. Reiknað veiðiálag á dílaskarfsstofninn var 6–8% á tímabilinu 2017–2020.

Árið 2021 var heildarfjöldi toppskarfshreiðra metinn 6.111. Toppskarfur hefur verið að rétta úr kútnum síðustu 3 ár eftir áralanga hnignun, sem ef til vill má rekja til hruns sandsílis árið 2005. Landfræðileg dreifing toppskarfa hefur gjörbreyst frá fyrstu talningum 1973–1975 þegar meginhluti stofnsins var í norðvestanverðum Breiðafirði, mjög lítið í suðaustanverðum firðinum, enn minna í Faxaflóa og ekkert á Ströndum. Nú er um helmingur í norðvestanverðum Breiðafirði, 28% í suðaustanverðum firðinum, 17% í Faxaflóa og 6% á Ströndum. Stærð toppskarfastofnsins er ekki hægt að meta á sama hátt og dílaskarfastofnsins, heldur byggist stofnmat á lýðfræðilegum vísitölu og stærðargráða áætluð gróflega með margföldun á fjölda hreiðra. Þannig var stofnstærð toppskarfa í september 2021 reiknuð 25.361 fugl samanborið við 25.269 árið 2020. Reiknað veiðiálag á toppskarfsstofninn var 4,8% 2020.

Veiðar eru heimilar á dílaskörfum og toppskörfum á tímabilinu 1. september til 15. mars og hafa veiðarnar verið skráðar síðan 1995. Fyrstu árin eftir að skráningar hófust var veiðiálag á báðar tegundir umtalsvert en síðan þá hefur verulega dregið úr þeim, þrátt fyrir uppsveiflu í báðum stofnum. Í dag má telja skarfaveiði sjálfbæra.

Veiðikortasjóður styrkir vöktun skarfa.

Nánar um vöktun skarfastofna