Ný skýrsla á vegum Bernarsamningsins um notkun framandi ágengra trjátegunda í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum

14.12.2021
Merki Bernarsamningsins

Á fundi fastanefndar Bernarsamningsins sem haldinn var dagana 29. nóvember til 3. desember var lögð fram skýrsla sem ætlað er að auka vitund stjórnvalda um áhættuna sem fylgir því að nota ágengar framandi trjátegundir til að sporna við loftslagsbreytingum.

Skýrslan var unnin af sérfræðingahópi Bernarsamningsins um ágengar framandi tegundir. Í henni er gefið yfirlit yfir aðgerðir sem viðhafðar eru í þeim tilgangi að sporna við loftslagsbreytingum, greint frá áhættu í tengslum við notkun ágengra framandi trjátegunda til að berjast gegn loftslagsbreytingum og farið yfir meginreglur sem ættu að liggja að baki framtíðaraðgerðum í þessum málaflokki.

Mikilvægustu atriðin sem hafa þarf í huga eru eftirfarandi:

  • Forgangsraða þarf verndun náttúrulegra og gamalgróinna skóga sem eftir eru. og sem og öðrum gerðum skóglendis. Einnig öðrum gerðum landgerða eins og votlendis, mólendis og graslendis.
  • Vernda þarf núverandi skóg og gera fullnægjandi ráðstafanir til að greina og draga úr hættu á neikvæðum áhrifum lífrænna og ólífrænna þátta, þar með talið eldhættu.
  • Endurheimta röskuð náttúruleg vistkerfi skóga, forðast plöntun trjáa í náttúrulegum búsvæðum eins og í votlendi, mólendi, graslendi, og forgangsraða svæðum sem hafa mikið verndargildi.
  • Afnema styrki og aðra hvata til aðgerða sem leiða til hnignunar náttúrulegra vistkerfa og umbreytingar hvers kyns landgerða yfir í skógræktarsvæði.
  • Nauðsynlegt er að muna að venjulega tekur það verulegan tíma frá gróðursetningu trjáa þar til ágengni þeirra kemur fram. Rannsóknir um allan heim staðfesta þetta.
  • Beita varúðarreglunni og ströngum skilyrðum til verndar líffræðilegum fjölbreytileika í öllum umfangsmiklum skógræktarverkefnum og endurheimt skóga.
  • Við skógrækt skal stuðla að notkun innlendra trjátegunda og tegunda sem eru í hættu.

Á fundi fastanefndar Bernarsamningsins var rætt um skýrsluna og verður hún líklega samþykkt á næsta fundi nefndarinnar 2022.