Ísland tilnefnir fimm svæði í net verndarvæða Bernarsamningsins

Ísland hefur tilnefnt fimm náttúruverndarsvæði hér á landi til að verða hluti af neti verndarsvæða Bernarsamningsins, sem kallast Emerald Network. Þetta var tilkynnt á 41. fundi fastanefndar Bernarsamningsins sem haldinn var í byrjun desember síðastliðinn. Um þetta er fjallað í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Bernarsamningurinn fjallar um vernd villtra plantna, dýra og búsvæða þeirra í Evrópu og gerðist Ísland aðili að samningnum árið 1993. Til að fylgja eftir markmiðum samningsins eru aðildarríki hvött til að gera tillögu að neti verndarsvæða sem saman mynda eitt net fyrir Evrópu, er kallast Emerald Network.

Svæðin fimm sem tilnefnd eru sem fyrstu íslensku svæðin í Emerald Nework eru Guðlaugs- og Álfgeirstungur, Vatnajökulsþjóðgarður, Verndarsvæði Mývatns og Laxár, Vestmannsvatn og Þjórsárver. Allt eru þetta friðlýst svæði sem uppfylla kröfur Bernarsamningsins um verndun vistgerða og tegunda og búsvæða þeirra að hluta eða öllu leyti. Svæðin fimm eru einnig meðal svæða sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lagt til að verði á framkvæmdaáætlun (B-hluta) náttúruminjaskrár út frá verndun vistgerða, fugla, sela og jarðminja á Íslandi en með henni eru lögð drög að neti verndarsvæða hér á landi.

Náttúrufræðistofnun Íslands undirbjó gögnin sem fylgdu tilnefningunni og voru þau afhent þann 1. desember 2021. Þar komu meðal annars fram upplýsingar um útbreiðslu, umfang, verndarstöðu og verndargildi vistgerða og tegunda sem Bernarsamningurinn fjallar sérstaklega um. Næstu skref eru þau að tilnefningar Íslands verða metnar af sérfræðingum samningsins í samstarfi við íslensk stjórnvöld og er niðurstöðu að vænta á þessu ári.