Nýtt jarðfræðikort af Vesturgosbeltinu

Út er komið nýtt jarðfræðikort af Vesturgosbelti Íslands í mælikvarðanum 1:100.000. Það nær yfir hraunasvæðin norðan Þingvallavatns og norður fyrir Langjökul og frá vestri teygir það sig yfir Arnarvatnsheiði og til austurs yfir Hreppafjöll. Kortið er hvoru tveggja gefið út sem kortablað á rafrænu formi og í kortasjá hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og Íslenskum Orkurannsóknum.

Jarðfræðikortið var unnið sem hluti af átaksverkefni sem hófst árið 2019 þegar umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og Náttúrufræðistofnun Íslands gerðu með sér samning um að kortleggja berggrunn Íslands í mælikvarðanum 1:100.000 og veitti ráðuneytið fjármagn til verkefnisins.

Vesturgosbeltið liggur í beinu framhaldi af Reykjanesskaganum til norðausturs. Berggrunnur svæðisins er að mestum hluta móberg og hraunlög og er honum skipt í nokkra aldurshópa. Elstu jarðlögin á kortinu eru frá síð-míósen (~5,5 m.ára) og yngsta hraunið er Hallmundarhraun sem rann á 10. öld. Nútímahraun, eða hraun sem runnu eftir síðustu ísöld eru 25 talsins á svæðinu og eru þau greind í fjóra aldursflokka með hjálp gjóskulaga.

Landslagið mótast af stefnu gossprungna og gliðnunarsprungna. Nútímahraun eru mun færri á Vesturgosbeltinu en á Reykjanesskaganum en áætlað rúmmál þeirra er þó meira sem getur þýtt að eldvirkni þar hefur að jafnaði verið umfangsmeiri. Stærð og umfang hrauna og dyngna á svæðinu sýna þetta, til dæmis Skjaldbreiðarhraun (13 km3), Þingvallahraun (11 km3), Kjalhraun (tæpir 11 km3) og Lambahraun (7 km3). Móbergsfjöll eru líka mjög áberandi og skiptast þau í móbergshryggi og móbergsstapa. Hryggirnir samsvara sprungugosum á nútíma en staparnir dyngjugosum. Sum fjallanna eru meðal stærstu móbergsfjalla landsins. Þar má nefna Eiríksjökul, Krák á Sandi, Hrútfell, Hlöðufell, Rauðafell og Högnhöfða.  Móbergshryggir og stapar eru einstakar jarðmyndanir sem eru ekki algengar fyrir utan Ísland.

Á kortinu eru sýnd jarðhitasvæði og lindir ásamt helstu dráttum höggunar og jökulhörfunar. Nokkur ný jarðfræðileg fyrirbæri komu í ljós við kortlagninguna á síðustu árum, meðal annars fundust ummerki um megineldstöð í Hrútafirði, heit uppspretta við Sultafit, nýjar aldursgreiningar á nútímahraunum og áður óþekktir hraunhólmar í Laska, Hallmundarhrauni.

Nýja kortið byggir á korti Sveins P. Jakobssonar jarðfræðings, sem var nær fullklárað þegar hann féll frá sumarið 2016. Meðal stærstu rannsóknaverkefna Sveins var bergfræði Reykjanesskaga, Vesturgosbeltisins, og Suðurlandsgosbeltisins en einnig ber að nefna rannsókn á myndun móbergs í Surtsey sem var byltingarkennd á heimsvísu. Hann vann að umfangsmiklum rannsóknum á móbergi á Vesturgosbeltinu. Hann kortlagði og lýsti móbergsmyndunum en að auki lét hann  aldursgreina og efnagreina yfir 50 móbergsmyndanir, sem er ein stærsta rannsókn á móbergsmyndunum hérlendis. Þá byggist nýja kortið að hluta til á eldri prentuðum kortum, áður óbirtum gögnum og kortum í stærri mælikvarða sem birst hafa í vísindagreinum og skýrslum Náttúrufræðistofnunar Íslands, Íslenskra orkurannsókna og Orkustofnunar. Kortin hafa verið endurskoðuð og nýjum upplýsingum bætt við.

Að kortlagningunni unnu jarðfræðingarnir Birgir V. Óskarsson, Ögmundur Erlendsson, Robert Alexander Askew, Árni Hjartarson, Magnús Á . Sigurgeirsson, Skafti Brynjólfsson og Sveinn P. Jakobsson en um kortagerð sáu Anette Theresia Meier, Lovísa Ásbjörnsdóttir, Albert Þorbergsson og Gunnlaugur M. Einarsson.

Jarðfræði Íslands – kortasjá