Styrkur til rannsókna á landnámi innfluttra plöntutegunda á hálendi Íslands

28.03.2022
Bílalest á hálendi Íslands
Mynd: Ewa Maria Przedpelska-Wasowicz

Á Sprengisandsleið á hálendi Íslands.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur hlotið 2,5 milljóna króna styrk úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar til verkefnisins „Opna fjallvegir hlið fyrir landnám innfluttra plöntutegunda á hálendi Íslands?“. Verkefninu er stýrt af Pawel Wasowicz grasafræðingi.  

Hálendi Íslands er einstakt á heimsvísu. Þar er náttúran fjölbreytt með öræfum, fjöllum, jöklum, gróðri og vatni og þar eru einnig ein stærstu óbyggðu víðerni í allri Evrópu. Hálendi Íslands er ein verðmætasta auðlind landsins og þangað sækja sífellt fleiri ferðamenn og nota flestir til þess vélknúin ökutæki og vegakerfið.  

Nýlegar athuganir Náttúrufræðistofnunar Íslands og fyrri rannsóknir sýna að hálendið er undir vaxandi þrýstingi frá framandi plöntutegundum og að vegakerfið gæti verið ein af lykilleiðunum fyrir þær inn á svæðið. Hingað til hefur ekki verið rannsakað sérstaklega hvort innfluttar plöntur skapi vanda meðfram fjallvegum á hálendinu, hins vegar eru nokkrar vísbendingar um að innflutt plöntufræ berist til vinsælla ferðamannastaða á hálendinu í vaxandi mæli. Sem dæmi má nefna að stutt eins dags könnun á Hveravöllum árið 2021 leiddi í ljós að þrjár nýjar innfluttar plöntutegundir voru á svæðinu. Tvær þeirra hafa þegar hafið landnám í graslendi þar sem jarðhita gætir.  

Þegar plöntutegund er komin inn á svæði er oftast mjög erfitt og stundum algjörlega ómögulegt að uppræta hana. Til að koma í veg fyrir landnám innfluttra tegunda þyrfti að setja niður áætlun og forgangsraða aðgerðum en til að það sé hægt er nauðsynlegt að vita meira um hvernig tegundirnar berast til hálendisins, hvaða tegundir eru farsælastar í landnámi í því umhverfi og hvaða umhverfisþættir hafa áhrif á landnám og útbreiðslu tegundanna. Verkefnið sem nú hefur hlotið styrk frá Vegagerðinni felur í sér grunnrannsóknir sem svara þessum spurningum og eru nauðsynleg forsenda til að þróa aðgerðir til að lágmarka umhverfistjón af völdum vegakerfisins og framandi plöntutegunda.