Hrafnaþing: Breytingar tindagróðurs í Öxnadal 2008–2021

19.04.2022
Vísindamenn við gróðurmælingar á Sjónarhóli nærri Hraunsvatni
Mynd: Starri Heiðmarsson

Vísindamenn við gróðurmælingar á Sjónarhóli nærri Hraunsvatni.

Á Hrafnaþingi miðvikudaginn 20. apríl kl. 15:15–16:00 flytur Starri Heiðmarsson fléttufræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands erindið „Breytingar tindagróðurs í Öxnadal 2008–2021: vöktun á áhrifum loftslagsbreytinga“. Hrafnaþing verður haldið í fundarherbergi R262 á 2. hæð í rannsókna- og nýsköpunarhúsi, Borgum við Norðurslóð á Akureyri. 

Í erindinu verður sagt frá rannsóknum á háfjallagróðri á fjallstindum í Öxnadal. Þær eru hluti af alþjóðlegu verkefni sem ber heitið GLORIA en markmið þess er að meta hver áhrif hlýnunar jarðar verður á gróðurfar heimsins með reglulegum mælingum. Verkefnið nær nú til 137 staða í heiminum og eru notaðar staðlaðar aðferðir á öllum rannsóknasvæðunum. Á Íslandi er gróður vaktaður á fjórum fjallstindum í Öxnadal. Þeir eru í 520–1.250 metra hæð yfir sjávarmáli og töluvert breytilegir. Þar voru gerðar mælingar árið 2008 og aftur sumarið 2021. Greint verður frá aðstæðum í Öxnadal og sagt frá fyrstu niðurstöðum endurmælinganna auk þess sem fjallað verður um verkefnið og aðferðarfræði þess.

Erindið verður í beinni útsendingu á rás Náttúrufræðistofnunar Íslands á Youtube.