Líffræðileg fjölbreytni til framtíðar

Í gær, 22. maí, var alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni. Slagorð dagsins var „Að byggja upp sameiginlega framtíð fyrir allt líf.“

Líffræðileg fjölbreytni er undirstaða tilveru okkar og framtíð og verndun hennar því eitt mikilvægasta verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Með líffræðilegri fjölbreytni er átt við allar tegundir lífvera sem finnast á jörðinni, þann breytileika sem er milli einstaklinga sömu tegundar, samfélögum og vistkerfum sem tegundirnar mynda og þeim ferlum sem móta lífríkið. Að viðhalda heilbrigðri og öflugri líffræðilegri fjölbreytni er grundvöllur lífsgæða því ótal auðlindir og náttúrulegir ferlar sem eru okkur lífsnauðsynleg byggjast á því að líffræðileg fjölbreytni sé til staðar.

Því miður hnignar fjölbreytileika lífríkisins um allan heim stöðugt og hratt. Umsvif mannsins eru þar meginorsökin, þar sem á sér stað yfirtaka búsvæða, mengun, útbreiðsla ágengra tegunda, ofnýting náttúrunnar, loftslagsbreytingar, fjölgun mannkyns og aðrar mannlegar athafnir. Að vernda líffræðilega fjölbreytni er því ein megináskorunin tengd sjálfbærri þróun, og er þungavigtaratriði í náttúrutengdum lausnum í ýmsum málaflokkum svo sem loftslagsmálum, heilbrigðismálum, matvæla- og vatnsvernd og sjálfbærri lífsafkomu.

Fólk um allan heim er hvatt til að láta sig framtíðina varða, láta heiminn vita að því sé annt um ókomna tíð og óska eftir sterkum alþjóðlegum ramma sem hægir á hnignun líffræðilegs fjölbreytileika og snýr ferlinum við.

Það skiptir einnig máli að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni Íslands. Náttúrufræðistofnun Íslands leitast við að leggja sitt af mörkum til verndar náttúru og lífríki og er áberandi á miðlum RÚV þessar vikurnar í þáttum þar sem fjallað er um náttúru Íslands. Þannig hófst nýverið í sjónvarpi RÚV sýning á þáttaröð þar sem fjallað er um áhrif loftslagsbreytinga á náttúru Íslands. Um er að ræða sex þætti þar sem fjallað er um gróðurfar, fugla, spendýr, smádýr, vatnalíf og framandi ágengar tegundir. Það voru kvikmyndaframleiðslufyrirtækin Ljósop og KAM Film sem stóðu að framleiðslu myndanna, meðal annars í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Í útvarpsþættinum Samfélagið á RÚV1 er á hverjum föstudegi spjallað um dýr og þar hafa fulltrúar frá Náttúrufræðistofnun Íslands rætt um dýr frá ýmsum sjónarhornum.

Vefur alþjóðlegs dags líffræðilegrar fjölbreytni