Blátt kolefnisvistkerfi Norðurlandanna: staða og horfur

Nýverið kom út grein í vísindatímaritinu Frontiers in Marine Science sem fjallar um stöðu og horfur norrænna strand- og sjávarvistkerfa með tilliti til kolefnisbindingar og möguleika á að draga úr loftslagsbreytingum. Meðal höfunda greinarinnar er Sunna Björk Ragnarsdóttir, sjávarvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Í vistkerfum stranda og sjávar er meðal annars að finna sjávarfitjar, marhálmsgræður og þangfjörur með þangi og stórþörungum. Búsvæði af þessari gerð binda og geyma meira kolefni á hverja flatarmálseiningu en skógar á landi og eru viðurkennd fyrir hlutverk sitt í að draga úr loftslagsbreytingum. Blátt kolefni vísar til kolefnis sem geymt er í strand- og sjávarvistkerfum.

Í greininni, sem ber heitið Nordic Blue Carbon Ecosystems: Status and Outlook, er greint frá þekkingu sem til staðar er á strand- og sjávarvistkerfum Norðurlandanna, með tilliti til búsvæða, kolefnisforða, bindingarhlutfalls, ávinnings, stefnu og stjórnunar. Tilgangurinn er að hvetja til sameiginlegrar stefnu Norðurlandanna í að draga úr loftslagbreytingum, styðja við strandvernd, líffræðilegan fjölbreytileika og starfsemi vistkerfanna.

Nánari upplýsingar er að finna í greininni:

Krause-Jensen, D., H. Gundersen, M. Björk, M. Gullström, M. Dahl, M.E. Asplund, C. Boström, M. Holmer, G.T. Banta, A.E.L. Graversen, M.F. Pedersen, T. Bekkby, H. Frigstad, S.F. Skjellum, J. Thormar, S. Gyldenkærne, J. Howard, E. Pidgeon, S.B. Ragnarsdóttir, A. Mols-Mortensen og K. Hancke 2022. Nordic Blue Carbon Ecosystems: Status and OutlookFrontiers in Marine ScienceFrontiers in Marine Science 9: 847544. DOI: 10.3389/fmars.2022.847544