Vísindagrein um gróðurframvindu í Surtsey

09.06.2022
Gróðursamfélagið í máfavarpinu í Surtsey
Mynd: Borgþór Magnússon

Gróðursamfélagið í máfavarpinu í Surtsey sem fjallað er um í greininni.

Nýverið kom út í vísindatímaritinu Ecology and Society grein sem fjallar um kerfisgreiningu á plöntusamfélagi í máfavarpi á eldfjallaeyjunni Surtsey á árunum 2000–2018. Höfundar greinarinnar eru þau Hannah Schrenk og Wolfgang zu Castell við Helmholtz Zentrum stofnunina í Þýskalandi, Borgþór Magnússon við Náttúrufræðistofnun Íslands og Bjarni Diðrik Sigurðsson við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Á rannsóknartímabilinu voru greindar tvær aðlögunarlotur. Þannig mátti á fyrstu árunum sjá gróður breytast frá landnemagróðri yfir í graslendissamfélag. Í því fyrrnefnda gegndi fjöruarfi lykilhlutverki en með árunum vék hann fyrir vallarsveifgrasi, túnvingli og fleiri tegundum sem einkenna frjósamt graslendi í Surtsey og Vestmannaeyjum. Greiningin staðfesti að drifkraftur breytinga í samfélaginu var flutningur næringarefna með máfum frá sjó upp á varpsvæði þeirra í eynni. Jafnframt kom í ljós að talsverðar breytingar urðu á samfélaginu eftir árið 2012 sem var óvenjuþurrt í eynni. Í kjölfarið styrktu vallarsveifgras, melgresi, haugarfi og baldursbrá stöðu sína í samfélaginu.

Nánari upplýsingar er að finna í greininni:

Schrenk, H., B. Magnússon, B.D. Sigurðsson og W.Z. Castell 2022. Systemic analysis of a developing plant community on the island of Surtsey. Ecology and Society 27(1): 35.