10. desember 2003. Snorri Baldursson: Áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi norðurhjara

Snorri Baldursson líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 10. desember 2003. 

Undanfarin fjögur ár hefur starfshópur á vegum Norðurskautsráðsins unnið að vísindalegu mati

á áhrifum loftslagsbreytinga á vistkerfi og samfélög norðurhjara. Endanlegar niðurstöður þessa matsferlis verða kynntar á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins á Akureyri haustið 2004, en Ísland fer nú með formennsku í ráðinu.

Í erindinu mun dr. Snorri Baldursson, sem setið hefur í stýrinefnd verkefnisins frá upphafi, ræða helstu ábendingar sem fram hafa komið til þessa, einkum hvað varðar áhrif loftslagsbreytinganna á dýra- og gróðursamfélög norðurhjara og á atvinnuhætti íbúa svæðisins. Áhyggjur manna beinast meðal annars að afdrifum dýra, svo sem hvítabjarna, sela og sæljóna sem byggja afkomu sína á hafís. Nokkur reiknilíkön spá því að allur sumarís verði horfinn af Íshafinu um næstu aldamót.

Kampselur
Mynd: GILG & SABARD/GREA.

Kampselur sólar sig á ís við Grænland. Kampselir hafast aðallega við á rekísnum umhverfis pólinn.

Túndrulandslag
Mynd: GILG & SABARD/GREA.

Túndrulandslag. Frá Bylot-eyju, sem liggur norðaustur af Baffins-landi í Kanada, heimkynni ísbjarna, snjógæsa og fjölda annarra heimskautategunda.