10. mars 2004. María Ingimarsdóttir: Lífríki háhitasvæða Gróður og smádýr

María Ingimarsdóttir líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslans flytur erindi á Hrafnaþingi 10. mars 2004.

Verkefnið Lífríki háhitasvæða er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands og Líffræðistofnunar Háskólans og er meginmarkmið þess að afla grunnupplýsinga um gróður og smádýr á háhitasvæðum. Verkefnið var unnið fyrir Rammaáætlun.

Í þessu erindi verður sagt frá niðurstöðum rannsóknar sem unnin var á sex háhitasvæðum í mismunandi landshlutum og í mismunandi hæð yfir sjó. Innan hvers svæðis voru gróður, smádýr og nokkir umhverfisþættir rannsakaðir við misháan hita.

Skýrsla með niðurstöðum rannsóknanna er nýlega komin út. Niðurstöðurnar sýna að munur er á gróðri og smádýralífi milli svæða sem meðal annars má rekja til staðsetningar og hæðar yfir sjó. Ennfremur er ljóst að jarðvegshiti hefur mikil áhrif á gróðurfar og smádýralíf. Tegundum fækkaði í langflestum tilfellum eftir því sem hitinn hækkaði en einnig varð breyting á tegundasamsetningu þannig að ekki fundust sömu tegundir á heitri og kaldri jörðu. Fáeinar tegundir plantna og smádýra fundust sem teljast sjaldgæfar á Íslandi og voru þær allar bundnar við jarðhita.

ae_fremstidalur_800
Mynd: Ásrún Elmarsdóttir

Hverasvæði í Fremstadal, á háhitasvæði Hengilsins, þar sem yfirborðshiti var yfir 70°C við hveramiðju. Mjög fáar tegundir plantna og smádýra þola svo mikinn hita.

Naðurtunga (Ophioglossum azoricum)
Mynd: Ásrún Elmarsdóttir

Naðurtunga (Ophioglossum azoricum)á Reykjanesi. Naðurtunga vex eingöngu í volgum jarðvegi og hefur aðeins fundist á Íslandi og á Azoreyjum.