10. mars 2010. Ásrún Elmarsdóttir: Flokkun og verndargildi gróðurs og landgerða á háhitasvæðum á Íslandi

Ásrún Elmarsdóttir

Ásrún Elmarsdóttir

Ásrún Elmarsdóttir plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun flytur erindi sitt og Olgu Kolbrúnar Vilmundardóttur „Flokkun og verndargildi gróðurs og landgerða á háhitasvæðum á Íslandi“ miðvikudaginn 10. mars næstkomandi.

Háhitasvæði landsins liggja öll á gosbeltum landsins og eru um tuttugu talsins. Bæði innanlands og utan er í vaxandi mæli litið til þeirra sem álitlegra kosta til virkjunar jarðvarma en einnig eru þau mikilvæg út frá sjónarhorni útivistar og náttúruverndar. Jarðhiti er sá umhverfisþáttur sem einkennir háhitasvæðin einna mest og skapar aðstæður sem eru ólíkar umhverfinu í kring. Þessar aðstæður geta haft bæði neikvæð og jákvæð áhrif á lífverur og ráða miklu um hvaða tegundir þrífast. Hér á landi finnast plöntutegundir sem bundnar eru hita í jarðvegi og aðrar sem sækja í hitann en einnig skapar jarðhitinn hagstæð skilyrði fyrir tegundir sem annars finnast einvörðungu á hlýrri landsvæðum.

Hveramoslendi með blóðbergi og skriðlíngresi við Geysi
Mynd: Ásrún Elmarsdóttir

Hveramoslendi með blóðbergi og skriðlíngresi við Geysi

Hveragraslendi með tágamuru og blákollu við Geysi
Mynd: Ásrún Elmarsdóttir

Hveragraslendi með tágamuru og blákollu við Geysi

Í tengslum við 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma var gróður rannsakaður á háhitasvæðum landsins á árunum 2005-2008. Eitt meginmarkmiðið var að skilgreina og lýsa gróðurfélögum og landgerðum sem eru undir áhrifum jarðhitans og hefur ekki áður verið lýst við hefðbundna gróðurkortagerð hér á landi. Gróður var rannsakaður á afmörkuðum mælingasvæðum á 17 háhitasvæðum og 15 undirsvæðum þeirra. Þar var land kortlagt, gróðri lýst, háplöntur skráðar og safnað sýnum af mosum og fléttum. Jafnframt var hiti í jarðvegi mældur. Verkefninu lauk á haustmánuðum 2009 og á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar eru aðgengilegar lokaskýrslur verkefnisins.

Í verkefninu voru ákvörðuð níu hveragróðurfélög og þeim skipt niður í þrjá meginflokka, þ.e. hveramoslendi (fjögur gróðurfélög), hveragraslendi (tvö gróðurfélög) og hveravotlendi (þrjú gróðurfélög). Auk þess voru greindar þrjár landgerðir; hveraleir, hverahrúður og hraun með útfellingum. Nokkur munur er á gróðurfari á milli svæða og sýndu niðurstöðurnar að mikill munur var eftir hæð yfir sjó, úrkomu og raka í jarðvegi. Einnig var munur á fjölbreytileika hveragróðurfélaga og landgerða, fjölda skráðra tegunda, válistategunda, jarðhitategunda og hitakærra tegunda á milli svæða.

Hveravotlendi með skriðlíngresi og mýradúnurt í Grændal
Mynd: Ásrún Elmarsdóttir

Hveravotlendi með skriðlíngresi og mýradúnurt í Grændal