12. maí 2004. Erling Ólafsson: Geitungar

Erling Ólafsson skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 12. maí 2004.

Fyrir um 30 árum hófst landnám geitunga hér á landi, en árið 1973 kom drottning húsageitungs sér fyrir í miðborg Reykjavíkur og varð henni tilætluð kápa úr klæði sínu. Holugeitungur, trjágeitungur og roðageitungur fylgdu í kjölfarið. E.t.v. hafa tegundirnar fjórar stofnað til varanlegrar búsetu.

Félagsskordýr

Geitungar eru aðdáunarverð félagsskordýr, lifa margir saman í búum sem þeir byggja utan um starfsemi sína. Allir íbúar hvers bús eru afkomendur sömu móður, drottningar, sem hefur búskapinn ein síns liðs á vorin að afloknum vetrarsvefni. Búin líða undir lok á haustin þegar þau hafa lagt samfélaginu til nýja kynslóð af drottningum sem þá makast og leggjast í vetrardvala.

Trjágeitungur, drottning
Mynd: Erling Ólafsson
Trjágeitungsbú í tré
Mynd: Erling Ólafsson

Hvernig vegnar þeim?

Trjágeitungi vegnar best enda þarf hann skemmstan tíma til að ljúka ferli sínu. Hann hefur breiðst út til flestra landshluta. Stoðir holugeitungs eru einnig traustar, þó fjöldinn sé breytilegur milli ára. Hann hefur hafið útrás frá höfuðborgarsvæðinu í austurátt. Húsageitungur átti sitt blómaskeið á miðjum 10. áratugnum. Hann virðist nú vera að gefa eftir og er jafnvel ástæða til að “óttast” um hag hans. Tegundin finnst aðeins á höfuðborgarsvæðinu. Roðageitungur er afar fágætur, en aðeins fjögur bú hans hafa fundist til þessa á höfuðborgarsvæðinu.

Söfnun geitungabúa

Hundruðum búa á mismunandi þroskastigum hefur verið safnað frá upphafi landnámsins. Geitungar hafa verið taldir úr búunum og flokkaðir eftir kynjum. Merkar upplýsingar eru fólgnar í gögnunum um aðlögun tegundanna að íslenskum aðstæðum. Stærsta búið reyndist bú holugeitunga sem hýsti 6.105 íbúa.

Stungur geitunga

Geitungar eru illa þokkaðir af flestum. Þeim líkar illa truflun við búin og svara gjarnan með mótárásum. Á afturenda hafa þeir áhrifamikinn eiturgadd, sem dugar þeim einkar vel í vörnum sínum. Stungurnar eru sárar og geta dregið alvarlegan dilk á eftir sér, þar sem stöku fórnarlömb hafa ofnæmi fyrir eitrinu. Geitunga ber því að varast.

Framtíð geitunganna

Geitunganna bíður án efa björt framtíð hér á landi, ekki síst ef fer sem horfir með hlýnandi veðurfar. Ekki er þó líklegt að tegundum fjölgi. Á Bretlandseyjum lifa sjö tegundir og þess er vart að vænta að nein þeirra þriggja, sem breska fánan hefur umfram okkar, nái hér fótfestu.

Fundarstaðir trjágeitunga. Kortagerð Lovísa Ásbjörnsdóttir
Mynd: N. Í. Lovísa Ásbjörndóttir

Fundarstaðir trjágeitungs skv. gagnagrunni Náttúrufræðistofnunar Íslands