13. apríl 2016. Skafti Brynjólfsson: Jöklunarsaga Drangajökuls

13. apríl 2016. Skafti Brynjólfsson: Jöklunarsaga Drangajökuls

Skafti Brynjólfsson jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Jöklunarsaga Drangajökuls“  á Hrafnaþingi miðvikudaginn 13. apríl kl. 15:15.

Í erindinu er fjallað um jöklunarsögu, sveiflur, setmyndanir og landmótun Drangajökuls. Einnig er rætt um jöklunar- og afísunarsögu Vestfjarða, frá seinni hluta síðusta jökulskeiðs til nútíma. Erindið er byggt á nýloknu doktorsverkefni þar sem saga jöklunar og framhlaupa Drangajökuls var rannsökuð.

Niðurstöðurnar benda til þess að Vestfirðir hafi að langmestu leiti verið huldir ís á hámarki síðasta jökulskeiðs en íshellan var undir sterkum áhrifum djúpra dala og fjarða Vestfjarðskagans. Þýðjöklar/ísstraumar flæddu tiltölulega hratt eftir fjörðum og dölum og rufu undirlag sitt. Ofarlega í fjallshlíðum eða yfir fjalllendi voru snörp skil í eiginleikum jökulíssins. Þar uppi var gaddjökull ráðandi sem flæddi hægt við innri aflögun og lét undirlag sitt að mestu ósnortið. Jökulhörfun hófst á hæstu fjöllum fyrir 26 þúsund árum, jöklaleysingin var ósamstíga milli svæða, en fyrir um 14–15 þúsund árum voru hærri landsvæði og sumir dalir þegar íslausir á meðan aðrir firðir og dalir máttu þola ágang meginskriðjökla Drangajökuls þangað til fyrir um það bil 9 þúsund árum síðan.

Svæðið umhverfis Drangajökul einkennist af þunnum og grófum jökulruðningi í bland við ísmótaðar og veðraðar klappir en aðliggjandi dalbotnar eru að mestu huldir ármöl og áreyrum. Framhlaupsjöklar Drangajökuls náðu hámarksstærð hver í sínu lagi á árunum 1700–1846. Sögulegar heimildir og kortlagning á landmótunarsvæðum þeirra leiddi í ljós jökulgarða sem voru tvöfalt fleiri en áður skráð framhlaup Drangajökuls. Framhlaupahlé eru mjög óregluleg, 10–140 ár, en framhlaup virðast hafa verið einna tíðust á 19. öld og í upphafi 20. aldarinnar. Ekkert augljóst samband loftlags við eignleika og tíðni framhlaupanna síðustu 2–3 aldirnar er greinanlegt.

Rannsóknin hefur leitt í ljós allflókið mynstur íseiginleika, sveiflna og jöklunarsögu Drangajökuls. 

Fyrirlesturinn á Youtube