14. apríl 2004. Margrét Hallsdóttir: Frjókornasumarið mikla 2003

Margrét Hallsdóttir jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 14. apríl 2004.

Frjókorn í andrúmslofti eru vöktuð í um 400 borgum Evrópu. Elsta mæliröðin nær aftur á miðja síðustu öld og er hún frá London. Á Íslandi hófust samfelldar mælingar vorið 1988 í Reykjavík. Síðastliðið sumar var eitt það frjóríkasta hér á landi enda þriðja hlýjasta sumarið frá upphafi veðurathugana í Reykjavík.

Birki
Mynd: Margrét Hallsdóttir

Birkið er vinsælt tré meðal garðeigenda og mikið notað í limgerði. Það blómgast á svipuðum tíma og það laufgast sem er oftast í síðari hluta maí. Frjókornin valda skæðu ofnæmi. Frjótíminn stendur yfir í 2-3 vikur.

Háliðagras með þroskaða fræfla
Mynd: Margrét Hallsdóttir

Háliðagras með þroskaða fræfla. Á Íslandi vaxa um 50 tegundir grasa. Nokkrar þeirra (t.d. háliðagras, vallarfoxgras og axhnoðapuntur, mynda frjókorn sem valda skæðu ofnæmi. Frjótíminn er langur því tegundirnar blómgast á mismunandi tíma, nær frá júní fram

Tilgangur mælinganna er að veita fólki sem haldið er frjónæmi upplýsingar um breytingar á frjómagni í andrúmsloftinu. Frjótölur eru birtar í textavarpi og á vef Morgunblaðsins yfir sumarmánuðina þegar mest er um frjókorn. Einnig hefur lyfjafyrirtæki kostað útgáfu á bæklingi með frjódagatali og fróðleik um helstu plöntur á Íslandi sem valda ofnæmi. Í vor kemur fjórða útgáfa bæklingsins út með endurskoðuðu frjódagatali og liggur hann frammi í lyfjabúðum og víðar.

Í erindinu verður fjallað um niðurstöður frjómælinga í Reykjavík frá sumrinu 2003 og þær bornar saman við eldri mælingar. Hlýnandi veður hefur haft þau áhrif að frjótíminn byrjar stöðugt fyrr. Í upphafi mælinga var algengast að tímabil grasfrjóa hæfist kringum Jónsmessu en í seinni tíð hafa grasfrjó mælst stöðugt í loftinu strax í fyrstu viku júní.

Hundasúra
Mynd: Margrét Hallsdóttir

Hundasúra og túnsúra mynda frjókorn sem oft valda þeim sem eru haldnir grasofnæmi óþægindum. Þær vaxa í túnum og óræktarlandi. Oft eru vegkantar rauðlitaðir af hundasúru. Þær blómgast í júní og frjótíminn getur staðið fram í júlílok.