14. janúar 2004. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir: Hvað er títt af sveppum?

14. janúar 2004. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir: Hvað er títt af sveppum?

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 14. janúar 2004. 

Rannsóknir erlendra manna á íslenskum sveppum hófust um 1885 er danskur sveppafræðingur Emil Rostrup og sænskur sveppafræðingur Carl J. Johanson skrifuðu báðir greinar um íslenska sveppi. Rostrup greindi árin þar á eftir fjölmarga íslenska sveppi sem íslenskir sem erlendir náttúrufræðingar söfnuðu og sendu til greiningar á Grasasafnið í Kaupmannahöfn. Þar var Ólafur Davíðsson á Hofi í Hörgárdal afkastamestur.

Í grein Rostrups 1903 um íslenska sveppi eru taldar 543 tegundir, langflestar smásveppir. Sumarið 1922 safnaði danski kennarinn Paul Larsen sveppum á Íslandi og niðurstöður hans ásamt þvi sem áður var þekkt birtust í ritröðinni Botany of Iceland árið 1932 og voru þá þekktar 800 tegundir sveppa hérlendis. Ingólfur Davíðsson gaf út ýmsar leiðbeiningar til bænda og garðræktenda um sníkjusveppi og varnir gegn þeim (1938-1971). Um 1960 tók Helgi Hallgrímsson að rannsaka íslenska sveppi og er þekking á íslenskum sveppum að miklu leyti byggð á vinnu hans. Hann hefur nú ásamt Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur skrifað handrit að Íslensku sveppatali I og II sem væntanlega verður prentað á þessu (I) og næsta (II) ári. Þar eru taldar upp þær sveppategundir sem fundist hafa á Íslandi, samheiti, hýslar, tíðni og þekkt útbreiðsla.

Vorið 1992 hóf Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir störf við Náttúrufræðistofnun Norðurlands sem árið 1994 varð Akureyrarsetur NÍ. Hún hefur umsjón með svepparannsóknum stofnunarinnar og vísindasafni sveppa. Vinna hennar felst í því að fara út í náttúruna og safna upplýsingum um sveppi á ákveðnum búsvæðum og í vinnu við sýnin og sveppasafnið. Einnig að miðla upplýsingum um sveppi til almennings sem og sveppafræðinga erlendis.

Árið 1993 var byrjað að skrá upplýsingar um sveppasýni vísindasafnsins í gagnagrunn NÍ og eru nú 12.373 sýni skráð þannig eða nálægt 2/3 hlutum safnsins. Miðað við sveppaflóru hinna Norðurlandanna er sveppaflóra Íslands illa þekkt.

Íslenskir barrskógar eru óðum að ná þroska og sumarið 2003 hófust rannsóknir á sveppaflóru misgamalla lerkireita á Héraði og birkiskógur hafður til samanburðar í verkefni NÍ og Skógræktar ríkisins sem heitir SKÓGVIST. Mun Guðríður Gyða m.a. segja frá starfi sínu og áhugaverðum sveppum sem fundist hafa síðustu árin.