14. mars 2012. Kristján Jónasson: Endalok tertíertímabilsins

Kristján Jónasson

Kristján Jónasson

Kristján Jónasson jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi sitt „Endalok tertíertímabilsins“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 14. mars kl. 15:15.

Á 32. alheimsþingi jarðfræðinga í Flórens árið 2004 ákvað alþjóðlega jarðlagafræðinefndin (ICS, International Commission on Stratigraphy) að afskrifa tímabilin tertíer (1,8-65,5 m.á.) og kvarter (0-1,8 m.á.) í jarðfræðilega tímatalinu og að í þeirra stað skyldi nota tímabilin paleógen (23-65,5 m.á.) og neógen (0-23 m.á.). Þessi ákvörðun varð vægast sagt mjög umdeild meðal kvarterjarðfræðinga (ísaldarjarðfræðinga). Alþjóða kvarterjarðfræðisambandið (50.000 meðlimir) krafðist þess að kvartertímabilið yrði tekið gilt að nýju og næði frá því fyrir 2,6 m.á. til dagsins í dag. Árið 2009 samþykkti ICS þessa kröfu og nú er nýlífsöld skipt í tímabilin paleógen (23-65,5 m.á.), neógen (2,588-23 m.á.) og kvarter (0-2,588 m.á.). Samfara þessu hafa ýmsar nýjar skilgreiningar á mörkum tímabila verið samþykktar.

Í erindinu verður fjallað um uppruna og sögu jarðfræðilegs tímatals. Núgildandi tímatal verður skoðað og farið yfir sögu jarðar og þróun lífs í stórum dráttum. Þá verður litið á áhrif þessara breytinga á íslenska jarðsögu og framsetningu jarðfræðikorta af Íslandi.

Tímatal jarðfræðinnar samkvæmt ICS

Fyrirlesturinn á Youtube

Einfaldað jarðlagasnið sem sýnir jarðsöguna
Mynd: Ray Troll

Einfaldað jarðlagasnið sem sýnir alla jarðsöguna

Líf á hafsbotni við lok frumlífsaldar
Mynd: Richard Harwood

Líf á hafsbotni við lok frumlífsaldar fyrir um 600 millj. árum