14. nóvember 2018. Sunna Björk Ragnarsdóttir: Þéttleikabreytingar algengra fjöruhryggleysingja á Suðvesturlandi

Sunna Björk Ragnarsdóttir

Sunna Björk Ragnarsdóttir sjávarlíffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Þéttleikabreytingar algengra fjöruhryggleysingja á Suðvesturlandi“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 14. nóvember kl 15:15. Þar mun hún kynna niðurstöður meistaraverkefnis síns þar sem skoðaðar voru árstíðabundnar þéttleikabreytingar hjá fjöruhryggleysingjum við Sandgerði á Reykjanesskaga yfir tveggja ára tímabil.

Fjöruhryggleysingjar eru almennt þekktir fyrir að geta brugðist við síbreytilegu umhverfi sínu bæði hvað varðar þéttleika og æxlunartíma en takmörkuð gögn eru til um þessa þætti hérlendis. Fjörur eru mikilvæg fæðuöflunarsvæði og því getur breyting í þéttleika þessara dýra haft áhrif á breiðan hóp lífvera. Í þessari rannsókn var þéttleiki algengra fjöruhryggleysingja metinn á föstum sniðum yfir tveggja ára tímabil og kannað hvort breytileiki væri á milli svæða og hæðar í fjöru. Einnig var lagt mat á tímgunartímabil nokkurra tegunda út frá stærðardreifingu einstaklinga. Mánaðarlegar sýnatökur í setfjörum og þangfjörum á Suðvesturlandi leiddu í ljós að níu tegundir/hópar náðu yfir 5% af heildarfjölda allra hryggleysingja sem fundust. Ífána setfjara var breytileg í þéttleika og tegundasamsetningu milli svæða og eftir hæð fjörunnar. Tegundir í þangi sýndu mikinn breytileika í þéttleika, bæði yfir tímabilið og eftir svæðum innan fjörunnar. Árstíðabundin sveifla í þéttleika sást hjá áfánu þangs, en illa eða ekki hjá ífánutegundum í seti. Lengdarmælingar bentu til þess að ungviði kæmi að mestu fram yfir sumartímann hjá áfánu þangs. Fjöruhryggleysingjar á Suðvesturlandi sýna mikinn mun á þéttleika á milli tímabila og svæða sem er í samræmi við niðurstöður sambærilegra rannsókna á norðurhveli. Undirliggjandi þéttleikabreytingar fjöruhryggleysingja eru mikilvægar grundvallarupplýsingar þegar fara á í sértækari rannsóknir, gera vöktunaráætlanir eða kanna fæðuframboð svo dæmi séu tekin.

Fyrirlesturinn á Youtube

Þangdoppa (Littorina obtusata) eru algeng tegund snigla í íslenskum fjörum
Mynd: Sölvi Rúnar Vignisson

Þangdoppa (Littorina obtusata) eru algeng tegund snigla í íslenskum fjörum.