15. febrúar 2012. Haraldur Rafn Ingvason: Vöktun Þingvallavatns

Haraldur Rafn Ingvason

Haraldur Rafn Ingvason

Haraldur Rafn Ingvason líffræðingur hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs flytur erindið „Vöktun Þingvallavatns“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 15. febrúar kl. 15:15.

Reglubundin vöktun á lífríki og vatnsgæðum Þingvallavatns hófst árið 2007 þegar Umhverfisstofnun, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum gerðu með sér samkomulag þar að lútandi. Markmið vöktunarinnar er að kortleggja ástand og breytingar sem kunna að verða á lífríki, efna- og eðlisþáttum vegna hugsanlegra álagsþátta.

Samkvæmt samkomulaginu hefur Náttúrufræðistofa Kópavogs sinnt vöktun á umhverfisþáttum, s.s. vatnshita, sýrustigi (pH) og rafleiðni, sem og lífverum í svifvist með áherslu á svifþörunga og svifkrabbadýr. Náttúrufræðistofan sinnir einnig rannsóknum á murtu í samvinnu við Veiðimálastofnun.

Í erindinu verður fjallað um verkefnið og helstu niðurstöður þess kynntar. Sérstöku ljósi verður beint að svifþörungum, þar sem niðurstöður benda til að aukning hafi orðið í magni þeirra frá því sem var á árabilinu 1970-1980. Þá verður fjallað um árstíðasveiflur í vatnshita, hitalagskiptingu vatnsins og áhrif ytri þátta á hana. 

Fyrirlesturinn á Youtube

Sýnataka á Þingvallavatni
Mynd: Náttúrufræðistofa Kópavogs

Starfsfólk Náttúrufræðistofu Kópavogs við sýnatöku á Þingvallavatni

Vatnssýnataki
Mynd: Náttúrufræðistofa Kópavogs

Vatnssýnataki: Búnaður til vatnssýnatöku