15. janúar 2003. Sigurður H. Magnússon: Þungmálmar í mosa, mælikvarði á loftmengun

Sigurður H. Magnússon plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 15. janúar 2003.

Í erindinu var fjallað um loftborna mengun af völdum þungmálma, sem mældir hafa verið í mosasýnum. Fyrst var stuttlega gerð grein fyrir helstu áhrifum þungmálma á lífverur og vistkerfi en megináhersla var lögð á að kynna niðurstöður vöktunarrannsókna sem fram hafa farið á meginlandi Evrópu og á Íslandi á síðustu áratugum. Gerð var grein fyrir aðferðum við mælingar, útbreiðslu málmanna lýst og sýndar helstu breytingar sem orðið hafa á styrk þungmálma. Að lokum var greint frá niðurstöðum mælinga við álverið í Straumsvík og þær m.a. bornar saman við niðurstöður annars staðar af landinu og við niðurstöður úr nágrenni norskra álvera.

Loftmengun mæld í mosum

Kort sem sýnir styrk járns (Fe) í mosasýnum frá Íslandi og meginlandi Evrópu árið 1995. Há gildi hér á landi (rauður lita) má rekja til berggrunns og gosvirkni fremur en til loftmengunar af manna völdum.