15. nóvember 2006. Tómas Jóhannesson: Líður tíminn hraðar eftir því sem við eldumst vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum?

Tómas Jóhannesson

Tómas Jóhannesson

Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, flytur erindi.

Loftslagsbreytingar sökum vaxandi gróðurhúsaáhrifa í andrúmsloftinu eru oft nefndar sem skýring á ýmsum breytingum sem menn verða varir við í umhverfi okkar.

Þar má nefna:

  • Hitabylgjur, eins og til dæmis í Evrópu sumarið 2003 sem talið er að hafi kostað 35000 manns lífið.
  • Breytingar í vatnafari, sem gætt hefur hér á landi allmörg undanfarin ár.
  • Hörfandi jökla, víðast hvar um heiminn.
  • Breytingar í fari fugla og útbreiðslu gróðurtegunda.
  • Óveður, sem oft er fullyrt að séu að verða tíðari.
  • Vaxandi tjón af völdum veðurs og breytinga í veðurfari.

Í erindinu voru þessar breytingar ræddar og gefið yfirlit um hvers kann að vera að vænta hér á landi á næstu áratugum og öld.
Við suðurjaðar Langjökuls má sjá skýr ummerki um áhrif loftslagsbreytinga á jökulinn. Ummerki um stöðu jökulsporðsins við lok litlu ísaldarinnar á síðari helmingi 19. aldar má sjá í hlíð Geitlandsjökuls ofan við sporðinn þar sem hann liggur upp við fjallið og þar sem jökulgarður liggur þvert yfir Ísalón framan við sporðinn. Jökullinn hefur hopað u.þ.b. kílómetra og þynnst mikið á um einni öld sökum hlýnunar sem orðin er hér á landi síðan í lok 19. aldar. Í fjarska má sjá Eiríksjökul sem einnig hefur rýrnað mikið í seinni tíð.  Ljósm. Oddur Sigurðsson.

Jökullón við Geitlandsjökul
Mynd: Oddur Sigurðsson

Jökullón við Geitlandsjökul