16. febrúar 2005. Sveinn P. Jakobsson: Íslensku eldstöðvakerfin - í nýju ljósi

Sveinn P. Jakobsson jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 16. febrúar 2005.

Eldstöðvakerfi var fyrst skilgreint sem hugtak í íslenskri jarðfræði fyrir aldarfjórðungi síðan. Eldstöðvakerfi er þyrping eldstöðva sem myndast hefur á ákveðnu tímaskeiði og hefur ákveðin bergfræðileg einkenni; eldfjall (megineldstöð) hleðst oft upp um miðbik svæðisins þar sem framleiðni gosefna er mest, og þar er jafnan mikil jarðhitavirkni. Þótt hugtakið hafi náð fótfestu meðal jarðfræðinga virðast þeir ekki að öllu leyti sammála um skilgreiningu þess, og þeir eru heldur ekki á einu máli um hversu mörg eldstöðvakerfi kunna að hafa verið virk á landinu á nútíma. Þá eru skiptar skoðanir um stærð og lögun einstakra eldstöðvakerfa. Hugtakið virðist ekki hafa náð neinni útbreiðslu meðal almennings.

Eldvirkni
Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands

Eldvirkni á plötuskilum Mið-Atlantshafshryggjar-ins í Vestra-gosbeltinu og á Reykjaneshrygg. Virk eldstöðvakerfi eru með rauðum lit og jarðhitakerfi með dökkrauðum lit.

gosbelt
Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands

Eldstöðvakerfin sem virk hafa verið á landinu og landgrunninu á nútíma.

Í erindinu mun Sveinn ræða þær rannsóknir jarðvísindamanna undanfarin ár sem snerta eldvirknina og þá sérstaklega tilveru eldstöðvakerfa á suðvesturlandi. Þessar rannsóknir benda eindregið til þess að ekki sé hægt að skilja að fullnustu eldvirknina, dreifingu jarðhita og jarðefnafræði gosbergs án þess að gera ráð fyrir tilvist eldstöðvakerfa, eininga sem líklega má aðgreina marga kílómetra niður í jarðskorpuna.

Sú vitneskja sem við nú ráðum yfir bendir til þess að eldvirknin á landinu á nútíma skiptist niður á 31 eldstöðvakerfi, en auk þess eru átta eldstöðvakerfi virk á landgrunninu að suðvestan og líklega fimm á landgrunninu út af norðurlandi. Stærð eldstöðvakerfanna er mjög breytileg og eldvirknin hefur verið mismikil, stærstu kerfin eru um miðbik landsins en þau minnstu við jaðrana og úti á landgrunninu.