16. mars 2005. Róbert Arnar Stefánsson og Menja von Schmalensee:

16. mars 2005. Róbert Arnar Stefánsson og Menja von Schmalensee:

Róbert Arnar Stefánsson og Menja von Schmalensee, líffræðingar hjá Náttúrustofu Vesturlands flytja erindi á Hrafnaþingi 16. mars 2005.

Óhætt er að fullyrða að minkurinn sé á meðal óvinsælustu dýra landsins. Margir Íslendingar hafa sterkar skoðanir á honum, lífsháttum hans og áhrifum á aðrar tegundir og eru þessi viðhorf að jafnaði neikvæð. Sagt verður frá niðurstöðum íslenskra rannsókna sem hjálpað gætu til við að varpa ljósi á það hvort viðhorfin til minksins séu á rökum reist.                                                                    

Aðskotadýr í íslenskri náttúru

Þrátt fyrir efasemdaraddir í upphafi, átti minkur ekki í erfiðleikum með að glíma við íslenska náttúru og skapaði sér fljótlega orðspor sem öflugt og afkastamikið rándýr sem léti fátt lifandi óáreitt. Af þeim sökum er dýrið oft stórt í hugum þeirra sem minna til hans þekkja og grimmt í augum flestra. Meirihluti fólks er þeirrar skoðunar að minkurinn sé aðskotadýr í náttúru landsins, sem eigi að uppræta ef mögulegt er. En er það raunhæfur möguleiki?

Áhrif á aðrar tegundir

Neikvætt orðspor minksins hefur einkum mótast af því að fái hann tækifæri til, drepur hann gjarnan meira en hann kemst yfir að éta. Þannig eru mörg dæmi um að minkur hafi á skömmum tíma skemmt eða eyðilagt þétt vörp nokkurra fuglategunda, einkum sjófugla. Þannig getur hann haft töluverð svæðisbundin áhrif og líklegt er að hann hafi átt þátt í fækkun tegunda á landsvísu, þótt sennilega sé algengara að áhrif hans séu minni.

Í fyrirlestrinum mun Róbert fjalla um framangreind viðhorf til minksins og sýna rannsóknaniðurstöður sem tengjast þeim beint og óbeint.