17. október 2012. Ester Rut Unnsteinsdóttir: Lítil mús á köldum klaka: þættir úr stofnvistfræði hagamúsa á Suðvesturlandi

Ester Rut Unnsteinsdóttir

Ester Rut Unnsteinsdóttir

Ester Rut Unnsteinsdóttir, doktorsnemi í líffræði, flytur erindi sitt „Lítil mús á köldum klaka: þættir úr stofnvistfræði hagamúsa á Suðvesturlandi“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 17. október kl. 15:15.

Fjallað verður um hagamúsina, Apodemus sylvaticus, sem er eina nagdýrategundin sem lifir villt í náttúru Íslands, óháð manninum. Greint verður frá rannsókn á stofnvistfræði hagamúsa á túnum og fjöruvist á Suðvesturlandi en einnig í blönduðum skógi til samanburðar. Athuganir fóru fram í landi Brautarholts á Kjalarnesi og í blönduðu skóglendi í landi Mógilsár.

Greint verður frá sveiflum í hagamúsastofninum eftir árstímum en mest var af músum á haustin en minnst á vorin. Svæðið á Kjalarnesi reyndist rýrara og þéttleiki lægri miðað við kjörlendi hagamúsa annars staðar en við Mógilsá var þéttleikinn mun meiri. Lífslíkur músa voru breytilegar eftir svæðum og árstímum en að jafnaði lifði um 15–20% haustmúsa af veturinn á Kjalarnesi en talsvert fleiri í skóginum við Mógilsá.

Rannsóknir á magainnihaldi músanna leiddu í ljós að mýsnar átu aðallega fræ á haustin en að lirfur ýmiskonar voru mikilvæg fæða á vorin. Meiri munur var á breytileika fæðunnar milli tímabila en svæða en svo virtist sem mýsnar í skóginum gengju fyrr á fræforðann að vetrinum og færu fyrr að éta fræ aftur um sumarið. Karlmýs voru þyngri en kvenmýs á öllum árstímum en skógarmýsnar voru marktækt þyngri en Kjalarnesmýsnar yfir háveturinn. Út frá stærð eistna og fjölda mjólkandi og/eða ungafullra kerlinga virtist tímgunartíminn standa frá því í apríl til byrjun september á Kjalarnesinu en svo virtist sem tímgun hætti fyrr að hausti á Mógilsá.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda meðal annars til þess að mýs á Kjalarnesi nái aldrei þeim þéttleika að fæða eða samkeppni um maka eða hreiðurstað verði takmarkandi. Kom í ljós að hitastig í upphafi vetrar skiptir mestu máli fyrir stærð Kjalarnesstofnsins næsta haust. Við Mógilsá virðast hinsvegar þéttleikaháðir þættir ráðandi, líkt og gerist á öðrum búsvæðum, nær miðju útbreiðslusvæðis tegundarinnar. Er þetta í fyrsta skipti sem sýnt er fram á að þéttleika-óháðir þættir ráði mestu um stofnstærð hagamúsa. Þær kunna betur við sig í laufskógum þar sem fæðuframboð og skjól er með betra móti, en hafa þó náð að aðlagast óhagstæðari búsvæðum, við ystu mörk útbreiðslusvæðis síns.

Fyrirlesturinn á Youtube

Hagamús á grjóti
Mynd: Arnar Þór Emilsson

Hagamús á grjóti

Hagamýs rannsakaðar á Suðvesturlandi
Mynd: Saga Svavarsdóttir

Ester Rut Unnsteinsdóttur á músaveiðum ásamt nemendum í líffræði við Háskóla Íslands