18. mars 2009. Hafdís Sturlaugsdóttir: Man sauður hvar gekk lamb?

Hafdís Sturlaugsdóttir

Hafdís Sturlaugsdóttir

Hafdís Sturlaugsdóttir, náttúru-og umhverfisfræðingur og bóndi, flytur erindi sitt „Man sauður hvar gekk lamb?“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 18. mars.

Móðuratferli og tengslamyndun móður og lamba hafa lítið verið rannsökuð á Íslandi. Markmið rannsóknar sem gerð var árin 2005 og 2006 var að rannsaka þessa tvo þætti, ásamt því að kanna hvort langtímatengsl væru til staðar. Bornir voru saman hópar af venjulegum ám og forystuám. Rannsóknin var gerð á tveimur bæjum á Ströndum, í Húsavík, þar sem var hópur af venjulegum ám og á Innra Ósi, þar sem bæði voru hópar af venjulegum ám og forystuám.

Sauðburður var myndaður og burðaratferli, ásamt atferli mæðra og lamba skoðað. Þegar lömbin voru vikugömul var kannað hversu sterk tengsl væru milli lamba og móður í þrautabraut. Fylgst var með ánum fyrsta sólarhringinn eftir að þær komu út á túnbeit og kannað hversu vel ærnar héldu lömbunum hjá sér. Að lokum var fylgst með ánum á frjálsri sumarbeit og þá sérstaklega kannað hvort skyldar ær héldu sig á svipuðum slóðum á beitinni. Niðurstöður rannsóknanna verða kynntar í erindinu.

Forystuær
Mynd: Hafdís Sturlaugsdóttir

Forystuá á Innra-Ósi

Lömb
Mynd: Hafdís Sturlaugsdóttir

Lambaeltingaleikur

hs_maze
Mynd: Hafdís Sturlaugsdóttir

Tilraunauppsetning á þrautabraut