18. nóvember 2015. Sigurður H. Magnússon: Gróðurframvinda í Skaftafelli

18. nóvember 2015. Sigurður H. Magnússon: Gróðurframvinda í Skaftafelli

Sigurður H. Magnússon gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Gróðurframvinda í Skaftafelli“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 18. nóvember. Meðhöfundar að erindinu eru Kristbjörn Egilsson og Eyþór Einarsson.

Þjóðgarðurinn í Skaftafelli var stofnaður árið 1967 og var land innan hans girt af og friðað fyrir búfjárbeit árið 1978.

Áhugavert þótti að fylgjast með gróðurbreytingum í þjóðgarðinum í kjölfar beitarfriðunar og hóf Náttúrufræðistofnun Íslands rannsóknir á gróðurframvindu í þjóðgarðinum undir stjórn Eyþórs Einarssonar grasafræðings. Settir voru upp 54 fastir gróðurreitir í margs konar landi víðs vegar um garðinn. Gróður í reitunum var mældur í fyrsta sinn árin 1978–1981 og í annað sinn 1985–1987. Mælingar hafa ekki verið endurteknar en farnar hafa verið tvær ferðir í Skaftafell til að skoða gróður í reitunum, árin  2004 og 2012. Í þessum ferðum voru teknar ljósmyndir af reitunum og þeir staðsettir með GPS-mælingum.

Unnið hefur verið úr gögnum frá Skaftafelli og í erindinu er greint frá helstu breytingum sem orðið hafa á gróðri á liðlega 30 árum

Niðurstöðurnar sýna að verulegar breytingar hafa orðið á gróðri í Skaftafelli en mjög mismiklar eftir svæðum. Einna minnstar hafa þær orðið á landi sem liggur hátt yfir sjó, einkum á melum þar sem frostlyfting virðist vera mikil. Víðast annars staðar hafa orðið umtalsverðar breytingar. Einkum hefur birki breiðst mikið út og er það nú mun meira áberandi en áður. Mestar hafa breytingarnar orðið við Bæjarstaðarskóg. Þar var birki tekið að nema land í í nágrenni skógarins 1978, áður en alaskalúpína  fór að breiðast þar út. Eftir að lúpína tók að nema land hefur vöxtur birkis aukist verulega.

Því hefur verið haldið fram að lúpínan hafi gegnt lykilhlutverki við að bjarga Bæjarstaðaskógi frá eyðingu. Niðurstöður þeirra rannsókna sem kynntar eru í erindinu benda hins vegar til að land ofan við Bæjarstaðaskóg hafi verið farið að gróa upp áður en lúpínan kom til sögunnar.

Fyrirlesturinn á YouTube