18. október 2017. Jón Einar Jónsson: Merkingar á æðarkollum í Breiðafjarðareyjum

Jón Einar Jónsson heldur á æðarblika
Mynd: Ellen Magnúsdóttir

Jón Einar Jónsson með æðarblika.

Jón Einar Jónsson forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi flytur erindið „Merkingar á æðarkollum í Breiðafjarðareyjum“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 18. október kl. 15:15.

Í erindinu verður fjallað um langtímarannsókn á æðarfuglum sem hófst í Breiðafjarðareyjum árið 2015. Val fugla á hreiðurstæði er háð því að forðast rándýr á álegutímanum, auk þess sem það er tengt átthagatryggð, dagsetningu varps og varpárangri æðarkollna.

Markmið verkefnisins eru að:

  1. kanna hvort kvenfuglar sýni mismunandi átthagatryggð milli eyja og ára.
  2. skýra einstaklingsbreytileika í vali á hreiðurstæði og varpárangri.
  3. bera saman varpárangur, dagsetningu varps, og álegu milli rannsóknareyjanna, sem eru ólíkar um staðhætti, gróðurfar, afræningja og tegundir annarra varpfugla.
  4. kanna hvort tryggð við hreiður eykst með aldri kvenfugla.

Þessi atriði tengjast líka staðháttum, til dæmis hver áhrif fjarlægðar frá sjó eru á ofantalda þætti.

Vettvangsvinna í maí og júní felur í sér föngun, merkingar og mælingar á kvenfuglum og mælingar á varpárangri og líkamsástandi þeirra. Einnig eru notaðar myndavélar til að fylgjast með afdrifum hreiðra og hegðan fuglana á álegu. Sumarið 2017 voru 258 kvenfuglar nýmerktir auk þess sem 187 voru endurheimtir. Þar með hefur 681 kolla verið merkt og alls hafa fengist 315 endurheimtur.

Sérstaða rannsóknarsvæðisins felst í breytileika í lit kvenfugla og fjölbreyttu gróðurfari og landslagi. Það leiðir aftur til áhugaverðs breytileika í hreiðurstaðavali innan og á milli varpstaða. Ferðalög merktra æðarkollna munu skýra skyndilegar breytingar í fjölda hreiðra í einstökum æðarvörpum.

Fyrirlesturinn á Youtube

Æðarfuglamerkingar í Helgaskeri í Rifgirðingum
Mynd: Jón Einar Jónsson

Jón Jakobsson og Árni Ásgeirsson við æðarfuglamerkingar í Helgaskeri í Rifgirðingum.