19. janúar 2005. Starri Heiðmarsson: Riðar flokkunarkerfi Linnés til falls?

Starri Heiðmarsson fléttufræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Ísland flytur erindi á Hrafnaþingi 19. janúar 2005.

Flokkunarfræði (taxonomy) fjallar um afmörkun, breytileika og nafngiftir tegunda. Einnig tekur flokkunarfræðin til flokkunar tegunda í stærri flokka s.s. ættkvíslir, ættir, ættbálka, fylkingar og ríki. Þá fjallar flokkunarfræðin ekki síður um þróunarsögu tegundanna, þ.e. hvaða flokkar eru skyldir og hver tengsl tegundanna eru. Í fyrirlestrinum verður lauslega fjallað um þróun flokkunarfræðinnar sem fræðigreinar og þá miklu gerjun sem þar á sér stað um þessar mundir vegna „DNA-byltingarinnar“. Sérstök áhersla verður lögð á að fjalla um nafngiftareglur en allnokkur hópur flokkunarfræðinga vill taka upp nýjar reglur hvað varðar nafngiftir tegunda. Þessar nýju reglur taka mun meira mið af þróunarsögu tegundanna og hafa verið nefndar „phylocode“.

Carl von Linné
Mynd: NN

Sænski grasafræðingurinn Carl von Linné, höfundur tvínafnakerfisins og upphafsmaður flokkunarfræði (taxonomy).

Brennisóley
Mynd: Hörður Kristinsson

Brennisóley.

Upphaf flokkunarfræðinnar eins og við þekkjum hana í dag má rekja til sænska grasafræðingsins Carl von Linné (1707–1778). Linné kom fram með tvínafnakerfið sem notað er enn þann dag í dag. Flokkun hans á blómplöntum, sem hann byggði einkum á blómgerð, hélt að hluta til velli langt fram á síðustu öld. Linné taldi tegundirnar vera náttúrulegar einingar en aðrar flokkunareiningar væru okkar mannanna verk en hann kom einnig fram með stigskiptingu flokkanna þannig að líkar tegundir tilheyra sömu ættkvísl, líkar ættkvíslir flokkast saman í ætt, ættirnar í ættbálka o.s.frv.

Tvínafnakerfi Linnés einfaldaði flokkunarfræðina en áður báru tegundir oft afar löng nöfn sem lýstu útliti þeirra og gerðu allar tilvísanir til tegunda erfiðar vegna lengdar nafnanna og þess að ekki var til samræmt nafnakerfi. Það var síðan tæpri öld eftir dauða Linnés, á alþjóðlegu grasafræðiráðstefnunni í París 1867 að settar voru fram reglur um nafngiftir plantna. Þær reglur urðu síðan grunnur að nafngiftareglum grasafræðinnar sem endurskoðaðar eru á fjögurra ára fresti og settar fram í „International code of botanical nomenclature“. Aðrar greinar hafa svipaðar reglur s.s. dýrafræði og örverufræði.

Ein af grundvallarreglunum um nafngiftir lífvera fjallar um forgang, þ.e. að hafi tvö nöfn verið notuð yfir sömu tegund þá ber að nota eldra nafnið. Þessi regla hefur oft valdið því að algengar tegundir hafa skipt um latneskt heiti þegar athugulir grasafræðingar hafa verið við heimildaleit í gömlum skræðum og rekist á gamlar lýsingar sem öllum voru gleymdar. Einnig geta tegundir breytt um nafn vegna þess að skilningur manna á eðli þeirra breytist t.d. þegar afbrigði er talið sjálfstæð tegund eða tvær líkar tegundir eru taldar vera sama tegundin. Þessar breytingar á nöfnum valda oft óánægju hjá notendum nafnanna sem auðvitað eru ekki bara flokkunarfræðingar heldur líka vistfræðingar, lífeðlisfræðingar, plöntusjúkdómafræðingar, plöntulandafræðingar o. fl.

Frummælendur nýja kerfisins (phylocode) telja að flokkunarkerfi það sem við notum í dag og byggir á kerfi Linnés endurspegli ekki þróunarsögu tegundanna nógu vel auk þess sem þeir telja það galla á kerfinu að tegundir skipta um nafn þegar tegund er færð milli ættkvísla. Samkvæmt nýja þessu nýja kerfi þá mun hver tegund fá eigið nafn sem einnig þarf að skrá í miðlægan gagnagrunn og tegundanöfn munu ekki verða háð ættkvíslaheitum og breytast því ekki þó mörk ættkvísla breytist. Einnig munu allir flokkar byggðir á stigskiptingunni hverfa og verða flokkarnir eftirleiðis afmarkaðir með hliðsjón af staðsetningu þeirra á þróunartré lífsins. Ekki verður um eiginlega stigskiptingu flokka að ræða en flokk má skilgreina útfrá nokkrum grundvallarreglum: Greinaháð, stofnháð og háð sértæku einkenni (sjá skýringarmynd).

 • Staða brennisóleyjar í kerfi blómplantna. Dæmi um stigskiptingu („Hierarchy“)

  Ríki: Plöntur (fleirfruma lífverur með
  „chlorophyll“ a og b í grænukornum)
  Fylking: Dulfrævingar (fræblöðin verða að lokuðu egglegi) - Angiospermae
  Flokkur: Tvíkímblöðungar - Eudicots
  Ættbálkur: Sóleyjaættbálkur – Ranunculales
  Ætt: Sóleyjaætt – Ranunculaceae
  Ættkvísl: Sóley–Ranunculus
  Tegund: Brennisóley – acris (Ranunculus acris)