2. desember 2015. Olga Kolbrún Vilmundardóttir: Gróðurframvinda og jarðvegsmyndun við hörfandi jökla á Suðausturlandi og samanburður við ung Hekluhraun
2. desember 2015. Olga Kolbrún Vilmundardóttir: Gróðurframvinda og jarðvegsmyndun við hörfandi jökla á Suðausturlandi og samanburður við ung Hekluhraun
2. desember 2015. Olga Kolbrún Vilmundardóttir: Gróðurframvinda og jarðvegsmyndun við hörfandi jökla á Suðausturlandi og samanburður við ung Hekluhraun

Olga Kolbrún Vilmundardóttir
Olga Kolbrún Vilmundardóttir landfræðingur flytur erindið „Gróðurframvinda og jarðvegsmyndun við hörfandi jökla á Suðausturlandi og samanburður við ung Hekluhraun“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 2. desember kl. 15:15.
Jöklar á Íslandi hafa hörfað meira og minna frá lokum litlu ísaldar um 1890. Er land verður íslaust hefst gróðurframvinda og efnaveðrun sem leiðir til jarðvegsmyndunar. Þar sem staða jökla á ákveðnum tíma er þekkt má nýta það til að rekja breytingar á gróðri og jarðvegi tengdar aldri yfirborðsins. Í erindinu verður fjallað um niðurstöður rannsókna á gróðurframvindu og jarðvegsmyndun við Skaftafellsjökul og Breiðamerkurjökul sem fram fóru 2010–2012. Meðal annars voru könnuð tengsl milli eiginleika jarðvegsins, aldurs jökulurðarinnar, gróðurþekju og landslags og sérstök áhersla lögð á uppsöfnun kolefnis í jarðveginum. Loks verða niðurstöður lauslega samanbornar við mælingar á framvindu í ungum Hekluhraunum.
Rannsóknin leiddi í ljós að tíminn frá því land varð íslaust hefur sterk tengsl við gróðurframvindu og jarðvegsmyndun. Mosar voru ríkjandi plöntuhópur fyrir framan báða jöklana og mældist þekja þeirra yfir 50% eftir 30 ár. Plöntur á borð við fléttur, smárunna og runna höfðu meiri þekju eftir því sem lengra hefur liðið frá hörfun jökulsins. Runnar og smárunnar voru áberandi á eldri jökulurð við Skaftafellsjökul en við Breiðamerkurjökul voru grös áberandi því þar voru engir runnar og lítið um smárunna. Jarðvegsmyndun var umtalsvert hægari við Breiðamerkurjökul þar sem A-lag var þunnt og kolefnishlutfall jarðvegsins lægra samanborið við Skaftafellsjökul. Líklegt er að ólíkir umhverfisþættir og gróðurframvinda hafi þar áhrif. Mesti uppsöfnunarhraði kolefnis reyndist vera í elstu jökulurðinni við Skaftafellsjökul, 9,1 g m–2 ár–1 eftir 120 ár (efstu 10 cm jarðvegs). Söfnunarhraðinn var talsvert lægri við Breiðamerkurjökul eða 4–4,5 g m–2 ár–1 eftir 67–122 ár (efstu 5 cm jarðvegs). Hann var talsvert lægri við jöklana tvo en mælst hefur í uppgræðslum og í skógrækt hér á landi. Landslag hafði áhrif á jarðvegsmyndun þar sem lægðir innan jökullandslagisn höfðu hærra kolefnis- og köfnunarefnishlutfall. Við Breiðamerkurjökul skipti fuglalíf sköpum þar sem „svalþúfur“ eða „fuglaþúfur“ höfðu myndast á jökulgörðum og reyndust vera „heitir reitir“ jarðvegsmyndunar í jökulurðinni. Árleg uppsöfnun kolefnis í jökulurðinni var áætluð 21 Mg kolefnis á ári við Skaftafellsjökul og 20 Mg kolefnis á ári við Breiðamerkurjökul.
Ólíkt jökulurðinni, sem er bergmulningur með umtalsverðum jarðraka, hafa ung Hekluhraun gróft og þurrt yfirborð. Sumarið 2015 var gróðurþekja og jarðvegsþykkt mæld í Hekluhraunum sem runnið hafa frá 1878 vestur og norður frá Hekluhryggnum og var áhugavert að bera framvindu í hraunum saman við jökulurðina. Gamburmosar og hraunabreyskja voru áberandi í gróðurþekju hraunanna. Mosar og fléttur reyndust fljót að þekja hraunin og strax eftir 24 ár var þekja nánast orðin alveg þétt. Mestri þykkt náði mosinn í hrauni frá 1947 (68 ár) eða 11 cm. Þar sem mosi og fléttur voru allsráðandi var lítið um háplöntur en í hraunum þar sem vikurfall eða áfok var áberandi jókst þekja þeirra á kostnað lágplantna. Lítið fór fyrir jarðvegsmyndun ofan á hraununum ef frá er talið þar sem gjóskufall eða áfok hefur bæst á hraunin. Það má segja að gróður sé fyrr til að þekja hraunin að fullu en jökulurðina. Með tímanum eykst þó hlutur háplantna hraðar í jökulurðinni en í hraununum. Þess ber að geta að hraunin liggja mun hærra en jökulurðin sem hér var rannsökuð og hefur það áhrif á gróðurfarið.

Runnar og smárunnar í jökulurð við Skaftafellsjökul sem varð íslaus eftir 1890. Illuklettar og Svínafellsjökull í baksýn.

Grösug, mosavaxin jökulurð við Breiðamerkurjökul sem varð íslaus milli 1930 og 1945. Öræfajökul ber við loft.

Mosavaxin Hekluhraun. Til hægri er hraun sem rann 1947 og til vinstri hraun frá 1991, mörkin eru fyrir miðri mynd. Ekki var munur á gróðurþekju milli hraunanna en mosaþykkt var 11 cm í hrauninu frá 1947 en 4 cm í hrauninu frá 1991.