2. mars 2005. Ólafur Eggertsson: Fornskógur í Fljótshlíð, varð hann Kötlu að bráð?

Ólafur Eggertsson, jarðfræðingur hjá Rannsóknastöð Skógræktar Mógilsá flytur erindi á Hrafnaþingi 2. mars 2005.

Sumarið 2003 hóf Rannsóknastöð Skógræktar, Mógilsá, athugun á fornum skógarleifum sem finnast við eyrar Þverár í Fljótshlíð. Staðurinn nefnist Drumbabót og er í landi eyðibýlisins Aurasels.

Grafið var niður með nokkrum lurkum og kom þá í ljós að þeir eru í lífsstöðu og situr rótin í sendnum móajarðvegi sem er 40–70 sm þykkur. Um 50 sm þykkt sandlag er ofan á gamla jarðveginum og malarlag undir honum.

Birkiskógurinn í Drumbabót

Allir lurkarnir sem rannsakaðir hafa verið eru birkilurkar (Betula pubescens) og sjást víða leifar af hvítum berki á þeim. Flestir lurkarnir hafa svipaða hallastefnu, til suðvesturs. Á hverjum hektara lands eru 500–600 lurkar og eru þeir 18 cm sverir að meðaltali. Gildustu lurkarnir eru yfir 30 sm í þvermál sem er sambærilegt við stór birkitré í skógum landsins í dag.

Sneiðar voru teknar af 10 lurkum til vaxtar og árhringjarannsókna. Niðurstöður sýna að stofnarnir hafa verið 70–100 ára gamlir. Mælingar á breiddum árhringja sýna að trén hafa drepist samtímis, því árhringurinn næst berki hefur myndast sama sumarið í þeim öllum.

Birki
Mynd: Ólafur Eggertsson

Birki sem stendur upp úr sandinum.

Trjálurkar í Drumbabót
Mynd: Ólafur Eggertsson

Trjálurkar í Drumbabót, Fljótshlíð.

Kafnaði skógurinn?

Þekkt eru ummerki sex jökulhlaupa sem fóru til vesturs úr Mýrdalsjökli, fjögur þeirra hafa orðið fyrir 6200 til 1400 árum síðan, hin tvö eru talin eldri. Líklega er eyðing skógarins í Drumbabót ummerki um síðasta hlaupið sem fór um Markarfljótsaura vegna umbrota í Kötlu.

Þegar hlaupvatnið fór um skóginn er líklegt að mikið set úr því hafi sest til og yfirborð hækkað. Þessi setmyndun hafi síðan valdið því að grunnvatnsborð hækkaði á svæðinu. Birkitré þola ekki að rætur þeirra séu stöðugt á kafi í vatni en allt bendir til að tré í hinum forna skógi hafi öll kafnað samtímis. Upphafleg þykkt setsins sem umlukti trén hefur ekki varðveist.

Tilurð lurkanna veitir einstakan möguleika á að aldursgreina hlaupið með mikilli nákvæmni með röð geislakolsgreininga úr sömu trjásneið. Ólafur greinir frá þeim niðurstöðum í fyrirlestrinum.

Gamall birkiskógur
Mynd: Skógvist

Gamall birkiskógur, ef til vill líkur þeim sem stóð í Drumbabót.

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar í kynnisferð í Drumbabót.