20. apríl 2011. Ólafur Karl Nielsen: Heilbrigði rjúpunnar

Ólafur K. Nielsen

Ólafur Karl Nielsen

Ólafur Karl Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, flytur erindið „Heilbrigði rjúpunnar“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 20. apríl kl. 15:15.

Íslenski rjúpnastofninn er sveiflóttur að stærð og um 10 ár líða á milli hámarka. Hliðstæðar stofnsveiflur eru þekktar hjá ýmsum tegundum grasbíta á norðurslóðum, bæði spendýra, fugla og skordýra. Almennt er talið að aflvaki sveiflunnar sé innan fæðuvefsins, og að sveiflan endurspegli samspil grasbítsins og þeirra plantna sem hann lifir á, eða að orsakavaldurinn sé þrepi ofar í fæðuvefnum en grasbíturinn og þá þau rándýr, sníkjudýr eða sóttkveikjur sem á hann herja.

Rannsóknir eru í gangi á tengslum heilbrigðis við stofnbreytingar íslensku rjúpunnar. Rannsóknasvæðið er á Norðausturlandi, en þar hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir á stofnvistfræði rjúpu frá 1981 og þær munu halda áfram og eru ein meginforsenda þeirra rannsókna sem hér eru kynntar. Rannsaka á í a.m.k. tíu ár nokkra þætti sem endurspegla heilbrigði, þ.e. holdarfar, sjúkdómsvalda, virkni ónæmiskerfis og fitukirtils og streituástand. Sýna verður aflað einu sinni á ári, í október.

Meginspurningarnar eru hvort tengsl séu á milli heilbrigðis rjúpunnar og stofnbreytinga, og einnig hver séu innbyrðis tengsl þeirra þátta sem lýsa heilbrigði rjúpunnar. Breytast fyrrgreindir heilsufarsþættir í takt við stofnsveiflu rjúpunnar en þó hnikað líkt og slíkir áhrifaþættir verða að gera? Rjúpum fækkaði 2006 til 2007 en stofninn hefur síðan vaxið. Verulegar breytingar hafa orðið á holdarfari rjúpna á þessum tíma, einnig á stærð líffæra, á þáttum sem tengjast vörnum gegn sníkjudýrum og á sníkjudýrabyrði.

Mikilvægi þessa verkefnis felst í því að varpa nýju ljósi á reglubundnar stofnbreytingar dýra, náttúrufyrirbæri sem hefur fangað hugi manna í áratugi.

Fyrirlesturinn á Youtube

Rjúpa

Rjúpa

Kláðamítill - Metamicrolichus islandicus
Mynd: Karl Skírnisson

Kláðamítill Metamicrolichus islandicus sem veldur kláða hjá rjúpum