20. febrúar 2008. Lilja Karlsdóttir: Birkifrjókorn: Má lesa sögu erfðablöndunar ilmbjarkar og fjalldrapa úr jarðvegi?

Lilja Karlsdóttir
Mynd: NN

Lilja Karlsdóttir

Lilja Karlsdóttir, líffræðingur á Líffræðistofnun Háskóla Íslands, flytur erindi um rannsóknir á frjókornum ilmbjarkar og fjalldrapa. Mikil vinna hefur verið lögð í að aðgreina frjókorn birkitegunda vegna mikilvægis þeirra í gróðurfarssögu Íslands. Lilja mun segja frá tveimur aðskildum rannsóknum á íslenskum birkifrjókornum í erindi sínu.

Í þeirri fyrri voru frjókorn tekin af þekktum trjám eða runnum í tíu skóglendum víðsvegar á landinu. Trén höfðu áður verið greind til tegundar með talningu litninga í ungu laufi. Litningatalningin flokkaði plönturnar í þrjá hópa: Fjalldrapa með 28 litninga, ilmbjörk með 56 litninga og blendinga með 42 litninga. Útlit trjánna var breytilegt og ekki alltaf mögulegt að sjá fyrir litningaflokk hvers einstaklings. Niðurstöðurnar sýndu að frjókorn fjalldrapa og blendinga voru að meðaltali minni en frjókorn ilmbjarkar. Þessi munur var marktækur en þó minni en eldri rannsóknir hafa sýnt, en mikil vinna hefur áður verið lögð í að aðgreina frjókorn birkitegunda vegna mikilvægis þeirra í gróðurfarssögu. Meðal frjókorna frá þrílitna blendingum var mjög mikið um afbrigðileg korn. Ef þessi korn sjást í sýnum úr setlögum og mó verður því mögulegt að nota þau til þess að greina tímabil erfðablöndunar í gróðurfarssögu.

Síðari rannsókninni, sem hér er sagt frá, er enn ekki lokið og niðurstöðurnar eru enn óbirtar. Þar reynum við að beita niðurstöðum fyrri rannsóknar á sýni úr 7 til 10 þúsund ára gömlu jarðvegssniði. Samanburður var gerður á geymsluaðferðum sýna sem benti til þess að ekki væri mögulegt að nota einfaldan fasta til þess að bera saman mælingar á frjókornum sem fengið hafa mismunandi meðhöndlun. Með þekktum aðferðum má þó reikna meðalstærðir og hlutföll mismunandi tegunda í sama sýni. Niðurstöður okkar benda til að í jarðvegssniðinu sem rannsakað var hafi fjalldrapi verið ríkjandi í upphafi tímabilsins en síðar fór hlutur ilmbjarkar vaxandi. Einnig sjáum við skýrar vísbendingar um að þrílitna blendingar ilmbjarkar og fjalldrapa hafi vaxið í nágrenni sýnatökustaðarins á afmörkuðum tímabilum.

Fyrirlesturinn var ekki tekinn upp.

Birkifrjókorn
Mynd: Lilja Karlsdóttir

Birkifrjókorn eru smásæ og ekki greinanleg með berum augum. Þessar myndir voru teknar í gegnum Leica smásjá (stækkun 630x).