20. febrúar 2019. Kristinn Haukur Skarphéðinsson: Hrafnar í Landnámi Ingólfs: breytingar á búsetu og stofnstærð 1982–2018

Kristinn Haukur Skarphéðinsson

Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi miðvikudaginn 20. febrúar 2019 kl. 15:15.

Hrafninn er útbreiddur og tiltölulega algengur varpfugl á láglendi um land allt en hefur fækkað sums staðar á síðustu áratugum. Hann helgar sér óðul þar sem einn eða fleiri varpstaðir eru nýttir kynslóð fram af kynslóð. Ókynþroska fuglar eru félagslyndir, halda iðulega til í flokkum og nátta sig á hefðbundnum náttstöðum, oft í hundraða tali. Í Landnámi Ingólfs, sem nær frá Ölfusá í austri og vestur og norður til Hvalfjarðar, eru þekkt um 220 óðul hrafna og væntanlega verpa þar um eða yfir 100 pör á ári hverju. Fylgst var með hrafnavarpi á þessu svæði 1982–1987 og síðan samfellt frá 2009. Jafnframt var mikið merkt af hröfnum. Merkingarnar sýna að hrafnar flækjast víða áður en þeir hefja varp 2–3 ára gamlir. Meðal annars hafa austfirskir hrafnar sést á sorphaugum Reykvíkinga. Hrafnavarp hefur dregist mikið saman á sunnaverðum Reykjanesskaga en haldist í horfinu og jafnvel aukist á höfuðborgarsvæðinu þar sem hrafnar nýta í æ ríkari mæli mannvirki  og  tré til varps. Hefðbundnir varpstaðir hrafna í borgarlandinu eiga hins vegar margir hverjir undir högg að sækja vegna vaxandi byggðar og mannaferða á viðkvæmum tíma.

Fyrirlesturinn á Youtube

Hrafn
Mynd: Erling Ólafsson

Hrafn.