20. mars 2013. Gísli A. Víkingsson: Nýlegar breytingar á útbreiðslu og fæðu hvala við Ísland: Áhrif loftslagsbreytinga?

Gísli Víkingsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun

Gísli A. Víkingsson

Gísli A. Víkingsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, flytur erindi sitt um nýlegar breytingar á útbreiðslu og fæðu hvala við Ísland, á Hrafnaþingi miðvikudaginn 20. mars kl. 15:15.

Hrefna, Balaenoptera acutorostrata, er algengasti skíðishvalurinn á landgrunnssvæði Íslands. Eftir 2001 hefur hrefnu fækkað talsvert á þessu svæði, og er þar líklega um að ræða breytingar á útbreiðslu innan stofnsvæðisins sem nær frá austurströnd Grænlands, um Ísland til Jan Mayen. Breytingar hafa einnig orðið á útbreiðslu nokkurra annarra hvalategunda s.s. steypireyðar, langreyðar og hnúfubaks á síðustu árum og áratugum. Ekki er ólíklegt að þessar breytingar endurspegli breytingar á fæðuframboði sem aftur gætu tengst hækkun á hitastigi sjávar við landið.

Rannsóknir á fæðu hrefnu við Ísland á árunum 2003-2007 varpa nokkru ljósi á þessar breytingar. Þær sýna mikla fjölbreytni í fæðu hrefnu, einkum fyrir norðan og austan Ísland. Samanburður við takmörkuð fyrirliggjandi gögn frá árunum 1977-1984 sýnir að miklar breytingar hafa átt sér stað á síðustu áratugum. Einkum virðist hlutur loðnu og ljósátu í fæðunni hafa minnkað á tímabilinu. Einnig urðu verulegar breytingar á fæðusamsetningunni innan rannsóknatímabilsins 2003-2007. Sandsíli var yfirgnæfandi þáttur fæðunnar við Suður- og Vesturland í upphafi tímabilsins en minnkaði mikið er á leið. Hlutdeild síldar og þorskfiska jókst að sama skapi.

Breytingarnar á fæðu hrefnu virðast í stórum dráttum endurspegla samsvarandi breytingar í framboði helstu fæðutegunda. Þannig er nú mun minni loðna úti fyrir Norðurlandi að sumarlagi en áður var og hrun virðist hafa orðið í sandsílisstofninum í kringum 2005. Þá virðist aukin stofnstærð síldar og ýsu koma fram sem aukin hlutdeild þessara tegunda í fæðu hrefnunnar.

Þessar breytingar á útbreiðslu og fæðusamsetningu hrefnu gætu endurspeglað viðbrögð tegundarinnar við breyttu umhverfi sjávar sem hugsanlega er afleiðing hnattrænnar hlýnunar af manna völdum þótt ekki sé enn hægt að útiloka náttúrulegar sveiflur.

Fyrirlesturinn á YouTube

Hrefna
Mynd: Gísli A. Víkingsson

Hrefna