20. mars 2019. Járngerður Grétarsdóttir: Fræslægja – aðferð til að dreifa staðargróðri

Járngerður Grétarsdóttir

Járngerður Grétarsdóttir gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi miðvikudaginn 20. mars 2019 kl. 15:15. Þar mun hún kynna niðurstöður tilrauna sem hún vann að sem lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands 2005–2018.

Í erindinu verður sagt frá aðferð til að loka sárum í landi með gróðri úr nærumhverfinu. Ýmsum framkvæmdum fylgir jarðrask og stundum er áhugi fyrir að vinna með gróðurinn á staðnum og flýta því að hann nái yfirhöndinni í raskinu.

Kynntar verða niðurstöður tilrauna þar sem prófað var að magndreifa innlendum plöntutegundum með aðferð sem höfundur hefur kallað söfnun og dreifingu fræslægju (e. green hay, seed-containing hay).  Sagt verður frá niðurstöðum tilrauna með fræslægju 2015–2016 á Keldnaholti-Korpu við Reykjavík og í Gunnarsholti og einnig á árunum 2007–2009 á Hellisheiði.

Aðferðin felst í að safna fræjum og öðrum dreifingareiningum plantna með því að slá gróður á gjafasvæði að hausti, eftir að fræþroska er náð, og flytja fræslægjuna strax (án þurrkunar eða annarar meðhöndlunar) og dreifa á raskað svæði.  Tilflutningur á slægjunni margfaldar fræmagn og mosabúta sem berast á svæðið miðað við sjálfuppgræðslu og slægjan (gróðurmassinn) veldur því að fræin og mosabrotin fjúka ekki burt og haldast á jarðvegsyfirborðinu. Slægjan veitir einnig raka meðan fræin spíra og mosabrotin festast en má þó ekki dreifa í of þykku lagi. 

Helstu æðplöntutegundir sem hægt var að sá og magndreifa á þennan hátt samkvæmt tilraununum hérlendis voru blávingull, vallhæra, gulmaðra, lokasjóður, ilmreyr, kornsúra, kattartunga, geldingarhnappur, túnvingull, língresi (Agrostis sp.) og einnig ýmsar algengar mosategundir.  Aðrar tegundir sem fundust í minna magni í slægjureitum voru hvítmaðra, ljónslappi, vegarfi og skarifífill.  Um var að ræða úttekt á árangri í tveimur tilraunum hérlendis en lengri reynsla er á notkun aðferðarinnar erlendis og er vel þekkt aðferð við endurheimt náttúrulegs gróðurs.  Gjafasvæðin sem voru slegin jöfnuðu sig fljótt líkt og eftir venjulegan túnslátt en aðferðin takmarkast að mestu við að slá jurtkenndan og fremur þéttan gróður.

Fyrirlesturinn á Youtube

Tilraunareitur með blávingli (Festuca vivipara), lokasjóð (Rhinanthus minor) og fleiri plöntutegundum fyrir söfnun fræslægju
Mynd: Járngerður Grétarsdóttir

Tilraunareitur með blávingli (Festuca vivipara), lokasjóð (Rhinanthus minor) og fleiri plöntutegundum fyrir söfnun fræslægju.