21. febrúar 2007. Sigmundur Einarsson: Jarðfræðileg fjölbreytni

21. febrúar 2007. Sigmundur Einarsson: Jarðfræðileg fjölbreytni

Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur hjá Almennu verkfræðistofunni hf., flytur erindi um jarðfræðilega fjölbreytni.

Hugtakið "jarðfræðileg fjölbreytni" (e: geodiversity) á sér liðlega 10 ára sögu og er talið upprunnið í Ástralíu, nánar tiltekið á Tasmaníu. Hugtakið hefur smám saman orðið að eins konar mótvægi við hugtakið "líffræðileg fjölbreytni" (e: biodiversity) sem er meira en 30 ára gamalt og hefur á vissan hátt slegið í gegn í umræðu um náttúruvernd. Ýmsum hefur þótt sem sú náttúruvernd er snýr að jarðfræðilegum þáttum hafi lengstum verið sett nokkuð til hliðar, jafnt hérlendis sem erlendis og tími til kominn að rétta hlut hinnar dauðu náttúru.

Árið 1996 var sett af stað verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinar sem hafði það markmið að koma hugtakinu jarðfræðileg fjölbreytni á framfæri í náttúruvernd á Norðurlöndum. Afraksturs þeirrar vinnu hefur lítið orðið vart utan hvað gefinn var út kynningarbæklingur á íslensku. Settar hafa verið fram nokkrar skilgreiningar á hugtakinu jarðfræðileg fjölbreytni sem eftirfarandi skilgreining er eins konar samnefnari fyrir.

Jarðfræðileg fjölbreytni er samspil og breytileikiberggrunns, lausra jarðlaga, landslags og þeirra ferla sem móta þessa þætti.

Ekki er fyllilega ljóst hversu vel þessi nálgun hentar til að meta verndargildi en ljóst er að uppbygging hinnar lifandi náttúru er ólík uppbyggingu þeirrar dauðu. Í erindinu verður m.a. fjallað um kosti þess og galla að beita þessari aðferðafræði við íslenskar aðstæður reynt að meta hvort það sé yfirleitt heppilegt troða eftirlíkingu af hugmyndafræði sem snýr að lífríkinu upp á urð og grjót.

Jarðfræði Íslands er í eðli sínu einsleit. Íslenskir móbergshryggir eru taldir einstakir á heimsvísu og athyglisvert er að kanna hvern dóm þeir hljóta í þessari nýju hugmyndafræði.