21. nóvember 2007. Friðgeir Grímsson: Steingerðar flórur Íslands

Friðgeir Grímsson
Mynd: Thomas Denk

Friðgeir Grímsson

Friðgeir Grímsson jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun Háskólans og gestarannsakandi á Náttúrufræðistofnun Íslands, heldur fyrirlestur um forn gróðursamfélög á Íslandi. Í erindinu mun Friðgeir fara stuttlega yfir eldri rannsóknir og kynna nýjar aðferðir við að greina og túlka steingerð gróðursamfélög. Þá lýsir hann gróðursamfélögum og breytingum sem urðu á þeim á míósentíma. Í lokin mun Friðgeir gera grein fyrir nýjum niðurstöðum og segja frá yfirstandandi rannsóknum sínum á yngri gróðursamfélögum landsins.

Rannsóknir undanfarinna ára á plöntusteingervingum frá míósentíma hefur sýnt að nokkrar tegundir virðast hafa verið staðbundnar og finnast eingöngu hér á landi. Má þar nefna tvær hlyntegundir, tvær birkitegundir, eina víðitegund, linditegund og eina þintegund. Þegar á heildina er litið endurspegla forn gróðursamfélög á Íslandi mikinn fjölbreytileika á míósentíma, einkum ef bornar eru saman tegundir úr elstu setlögum (um 15 millj. ára) og þeim yngri (um 6 millj. ára). Einungis tvær af þeim tegundum sem finnast í elstu jarðlögum landsins hafa fundist í þeim yngri. Tegundaríkustu gróðursamfélögin eru 12 milljón ára gömul, en þar hafa fundist um 35 tegundir. Má þar sérstaklega nefna plöntuleifarnar úr Surtarbrandsgili hjá Brjánslæk á Barðaströnd.

Tegundasamsetningu og setlagafræði má nota til að túlka umhverfisaðstæður og gróðursamfélög sem voru ríkjandi á hverjum stað á ákveðnum tímum í jarðsögu landsins. Samanburður við steingerðar flórur nágrannalandanna geta gefið þýðingarmiklar upplýsingar um uppruna tegunda. Dreifihættir plöntutegunda geta sagt fyrir um flutningsleiðir plantna yfir Norður-Atlantshaf og á þann hátt endurspeglað hugsanlegt landrænt samband Íslands við meginlöndin.

Plöntusteingervinga er einnig hægt að nota til þess að afla upplýsinga um loftslagssögu fyrri tíma á Íslandi, m. a. hitastig og úrkomu. Tegundasamsetning gróðursamfélaga bendir til þess að einna hlýjast hafi verið hér á landi fyrir um 12 milljónum ára og eftir það hafi loftslag farið kólnandi. Þessi kólnun náði hámarki þegar jöklar huldu landið í byrjun síðustu ísaldar. Miklar breytingar urðu á gróðri landsins á ísöld og í ísaldarlok.

Fyrirlesturinn var ekki tekinn upp.

Beykiblað
Mynd: Friðgeir Grímsson

Plöntusteingervingur, beykiblað.